Golf

„Nýtti reynsluna úr vindinum heima til að halda þolin­mæði“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ragnhildur varð fyrst íslenskra kvenna til að vinna LET Access mót.
Ragnhildur varð fyrst íslenskra kvenna til að vinna LET Access mót. LET ACCESS

Ragnhildur Kristinsdóttir nýtti reynsluna af vondu veðurfari hér á landi til að tryggja sér sigur á Ladies European Tour Access golfmóti, fyrst íslenskra kvenna. Ragnhildur endurhugsaði sinn leik síðasta vetur, hefur spilað stórkostlega í sumar og er í góðum séns á að komast áfram á LET mótaröðina á næsta ári.

Leikið var á Skerike golfvellinum í Svíþjóð síðustu þrjá daga en lokadagur mótsins fór fram í erfiðum veðuraðstæðum.

„Mjög íslenskt veður, blés eins og enginn væri morgundagurinn. Þannig að maður nýtti reynsluna úr vindinum heima til að halda þolinmæði og reyna bara að fá eins mörg pör og maður gæti… Það tókst, sem betur fer.“

Sólin skein fyrstu tvo dagana en vindur og væta var á lokadeginum.LET ACCESS

Ragnhildur varð þar með fyrst íslenskra kvenna til að vinna LET Access mót og fyrst til að vinna einstaklingsatvinnumannamót.

„Fyrst og fremst er ótrúlega gaman að vinna golfmót og að vinna sem atvinnumaður er enn sætara“ segir Ragnhildur.

„Ég er búin að vinna allt sem áhugamaður, bæði heima og svo átti ég góðan háskólaferil [í Bandaríkjunum]. Frábært að ná að færa það yfir á atvinnumannaferilinn og ná að klára dæmið hér líka. Það sýnir kannski hvað maður er komin langt, bæði golflega og ekki síst andlega.“

Endurhugsaði golfið síðasta vetur 

Ragnhildur nýtti síðasta vetur til að endurhugsa sinn leik og hefur notið góðs af því í sumar, hún segir samblöndu af mörgum þáttum spila inn í gott gengið.

„Ég er ekki alveg jafn mikill fullkomnunarsinni, golf þarf ekki að vera fullkomið. Þegar maður fattar það þá byrjar maður að sætta sig við léleg högg fyrr, gleyma þeim og þá nær maður að púsla saman góðum hringjum.

Ég er búin að spila vel núna á þremur mótum í röð, öll þessi mót í Svíþjóð hef ég spilað vel. Átti frábæran lokahring í seinustu viku, náði svo að færa það yfir á þessa viku og gera enn betur.“

Situr í góðum séns í fjórða sæti

Ragnhildur situr eftir sigurinn í fjórða sæti LET Access stigalistans en eftir tímabilið fá efstu sjö kylfingar listans sæti á LET mótaröðinni sjálfri, sterkustu atvinnumannamótaröð Evrópu.

„Það er stóra markmiðið, að enda í topp sjö og fá séns á stóra sviðinu á næsta ári... Ég er búin að vera að spila vel og ætla að nýta þetta til að spila enn betur. Ég er búinn að stilla upp dagskránni og stefni á að mæta af fullum hug í þau mót“ segir Ragnhildur sem er nú á leið til Spánar á næsta LET Access mót en kemur hingað til lands í næsta mánuði og tekur þátt í Íslandsmótinu. 


Tengdar fréttir

Ragnhildur fyrst Íslendinga til að vinna LET Access mót

Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, varð fyrst Íslendinga til að vinna mót á Ladies European Tour Access mótaröðinni þegar hún fagnaði sigri á opna Vasteras mótinu í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×