Innlent

Varað við fölsuðum töflum sem inni­halda hættu­lega efna­blöndu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Töflurnar eru líkar Oxycontin 80 mg í útliti
Töflurnar eru líkar Oxycontin 80 mg í útliti Lyfjastofnun

Lyfjastofnun varar við fölsuðum OxyContin-töflum sem eru í umferð. Við efnagreiningu kom í ljós að töflurnar innihéldu ekkert oxýkódón, sem er virka efnið í Oxycontin, heldur blöndu annarra efna.

Í tilkynningu frá Lyfjastofnun kemur fram að rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hafi nýlega borist til grieningar töflur sem líktust lyfinu Oxycontin 80 mg í útliti. Að efnagreiningu lokinni er ljóst að þær innihalda ekkert af virka efninu í því lyfi.

Fölsuðu töflurnar innihalda efni á borð við parasetamól, koffín, kódein, klónazepam, bíperíden og ketórólak. Ekki er ljóst hver samverkan þessara efna gæti orðið og því gætu áhrifin orðið ófyrirsjáanleg og valdið alvarlegum heilsufarsáhrifum.

Efnin sem greind hafa verið í fölsuðu töflunum eru sum hver notuð í lyfjum sem gefin eru við miklum verkjum, önnur við Parkinsonsveiki, enn önnur við flogaveiki. Töflurnar sem hafa verið efnagreindar koma frá Norðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×