Íslenski boltinn

Leikur Grinda­víkur færður vegna gossins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Grindavík spilar í Vogum annað kvöld.
Grindavík spilar í Vogum annað kvöld. Knattspyrnudeild Grindavíkur UMFG

Heimaleikur Grindavíkur við Selfoss í Lengjudeild karla í fótbolta annað kvöld mun ekki fara fram í Grindavík vegna yfirstandandi eldgoss. Um er að ræða fyrsta heimaleik liðsins sem þarf að færa frá bænum í sumar.

Eldgos hófst í fyrrinótt við Litla-Skógfell, töluvert langt norður af Grindavík, en bærinn var rýmdur í varúðarskyni. Almannavarnastig var fært af neyðarstigi á hættustig í gær. Af þeim sökum hefur bærinn verið lokaður almenningi síðan.

Borið hefur á mótmælum Grindvíkinga vegna lokunar á bænum. Bláa lónið er opið og þá fer meistaramót Golfklúbbs Grindavíkur fram á golfvelli Grindvíkinga í dag, eftir aflýsingar á fyrsta degi mótsins í gær.

Auk þess heimsótti Ursula ven der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Grindavíkurbæ í dag. Grindvískir mótmælendur flautuðu bílflautum sínum þegar van der Leyen keyrði þar framhjá ásamt Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, til Grindavíkurbæjar.

Sjá má á vef KSÍ að leikur Grindavíkur við Selfoss annað kvöld hefur verið færður af Grindavíkurvelli á Vogaídýfuvöllinn, heimavöll Þróttar Vogum við Vatnsleysuströnd. Fótbolti.net greindi fyrst frá.

Um er að ræða fyrsta leikinn sem Grindvíkingar geta ekki leikið á heimavelli sínum í sumar. Grindavík spilaði heimaleiki sína í Safamýri síðasta sumar en hóf aftur að spila í Grindavík þegar Lengjudeildin fór af stað í vor.

Töluverð spenna er meðal Selfyssinga fyrir leik morgundagsins en líklegt er að fyrrum landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson spili sinn fyrsta leik eftir heimkomu sína en hann fékk leikheimild með Selfyssingum við opnun félagsskiptagluggans í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×