Innlent

Hefja gjald­töku við höfnina í Stykkis­hólmi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stykkishólmshöfn.
Stykkishólmshöfn. Sveitarfélagið Stykkishólmur

Frá og með morgundeginum hefst gjaldtaka á bílastæðum við höfnina í Stykkishólmi. Parka mun sjá um rekstur, greiðslulausnir og innheimtu gjalda.

Frá þessu er greint á vefsíðu Stykkishólms.

Þar segir að tilgangur gjaldtökunnar sé að bæta nýtingu bílastæða, stýra umferð og tryggja tekjur til að viðhalda og bæta aðstöðu á svæðinu.

Um verður að ræða þrjá mismunandi gjaldflokka:

  • P1 – Skammtímastæði: 500 kr. á klst fyrstu tvær klst, 200 kr. á klst eftir það.
  • P2 – Langtímastæði: 1.500 kr. á dag fyrstu 7 dagana, 1.000 kr. á dag eftir það.
  • PR – Hópbifreiðar: 2.200–4.200 kr. á dag eftir stærð ökutækis.

„Eftirlit með greiðslu fer fram á vegum sveitarfélagsins, þar sem starfsmenn skanna bílnúmer og fletta upp hvort greitt hafi verið fyrir viðveru. Ef greiðsla liggur ekki fyrir, stofnast krafa í heimabanka eiganda ökutækis. MyParking ehf., dótturfyrirtæki Parka, annast útgáfu og innheimtu slíkra krafna í nafni Bílastæðasjóðs Stykkishólms. Vangreiðslugjald er 4.500 kr. með virðisaukaskatti,“ segir í tilkynningunni.

Bílastæðin eru meðal annars notuð af viðskiptavinum Ferjuleiða, sem rekur Baldur, öðrum ferðaþjónustuaðilum og eyjabændum, auk þeirra sem stunda atvinnustarfsemi við höfnina. 

Einhverjir aðilar munu fá heimild til að leggja án gjaldtöku, svo sem aðilar í vinnutengdum erindum, segir á vefsíðu Stykkishólms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×