Innlent

Sjö ára hlaupari kemur hópnum yfir línuna í sjötta mara­þoninu á morgun

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erik Leó Grétarsson ætlar að hlaupa í jakkafötum í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun líkt og þeir Pétur Ívarsson og Jóhann Ottó Wathne sem eru í hlaupahópnum HHHC.  Þær Íunn Eir Gunnarsdóttir og Eyrún Ösp Ottósdóttir eru félagar í Krafti og tóku á móti hlaupahópnum við Laugardalshöll í dag.
Erik Leó Grétarsson ætlar að hlaupa í jakkafötum í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun líkt og þeir Pétur Ívarsson og Jóhann Ottó Wathne sem eru í hlaupahópnum HHHC. Þær Íunn Eir Gunnarsdóttir og Eyrún Ösp Ottósdóttir eru félagar í Krafti og tóku á móti hlaupahópnum við Laugardalshöll í dag. Vísir/Ívar Fannar

Hlaupahópurinn HHHC kom til Reykjavíkur í dag eftir að hafa hlaupið fimm maraþon á fimm dögum í jakkafötum. Þeir loka hringnum í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun og þar bætist einn sjö ára í hópinn sem ætlar að hlaupa þrjá kílómetra í jakkafötum.

Hópurinn lagði af stað frá Akureyri á mánudaginn og lauk fimmta maraþoninu á fimm dögum í Laugardalshöll núna seinni partinn. Þeir munu hlaupa sjötta maraþonið á morgun og hlaupa til styrktar Krafti. Ætlunin var að safna tíu milljónum króna og náðist það markmið í dag.

„Dagurinn á morgun er eftir og við vonum að hann gefi vel. Kraftur þarf á því að halda og þetta gefur okkur Kraft til að klára síðasta hlaupið,“ sagði Pétur Ívarsson meðlimur hlaupahópsins.

Þeir segja stemmninguna í hópnum hafa verið góða alla vikuna. Þá sé gulrót að á morgun ætli þeir að hlaupa í hvítum jakkafötum sem þeir hafa ekki gert áður.

„Bara vináttan hefur treysts. Við erum búnir að vera félagar frá byrjun. Við fórum af stað vinir og erum bara ennþá betri vinir hérna í Höllinni. Þetta er bara dásamlegt,“ bætti Jóhann Ottó Wathne við.

„Þetta er svo gríðarlegt verkefni sem þeir eru að taka að sér“

Á meðal þeirra sem tók á móti hópnum í Laugardalshöllinni voru tvær konur sem greinst hafa með krabbamein og hópurinn hefur tileinkað hlaup sitt síðustu daga. Þær segjast gríðarlega þakklátar og að starfið hjá Krafti skipti sköpum.

„Maður verður bara pínu meyr og ótrúlega þakklátur. Þetta er svo gríðarlegt verkefni sem þeir eru að taka að sér og vekja athygli á félaginu okkar. Ekki bara að safna pening heldur að vekja athygli á félaginu og hvað þetta er mikilvægt,“ sagði Írunn Eir Gunnarsdóttir en hún tók á móti hópnum við Laugardalshöllina í dag.

Íunn Eir Gunnarsdóttir og Eyrún Ösp Ottósdóttir hafa notið góðs af starfi Krafts og tóku á móti HHHC-hópnum við Laugardalshöllina í dag.Vísir/Ívar Fannar

Þær segja starfið hjá Krafti afar mikilvægt.

„Við höfum gengið í gegnum þetta saman og þegar maður fær svona verkefni í hendurnar að það sé til félag sem getur stutt við mann á mjög mismunandi hátt. Að hitta konur í svona stelpukrafti, það er gert alls konar þar sem maður getur hlegið eða grátið. Ég tek undir, þetta gerir ótrúlega mikið fyrir mann,“ bættu Íunn Eir og Eyrún Ösp Ottósdóttir við.

„Mig langar að herma og gera eins og hlaupaliðið mitt“

Eins og áður segir þá fer Reykjavíkurmaraþonið fram á morgun og þá fær HHHC hópurinn liðsstyrk.

Hvað ert þú að fara að gera á morgun? 

„Ég er að fara að hlaupa þrjá eða tvo kílómetra í jakkafötum,“ sagði Erik Leó Grétarsson. Hann hefur áður mest hlaupið sjö kílómetra og treystir á stuðning áhorfenda á morgun. Þetta verður fyrsta hlaupið hans í jakkafötum en afi hans er hluti af HHHC hópnum.

Erik Leó Grétarsson ætlar að hlaupa í jakkafötum í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun en afi hans er í HHHC-hópnum.Vísir/Ívar Fannar

„Mér finnst það bara gaman og mig langar að herma og gera eins og hlaupaliðið mitt. Mér finnst gaman þegar fólk er að horfa á mann og fólk er að hvetja mann áfram,“ og óhætt að hvetja alla sem geta að mæta í miðbæinn á morgun og hvetja Erik Leó og aðra hlaupara til dáða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×