Íslenski boltinn

Fall reyndist farar­heill hjá Eyjakonum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Ólafur Daníelsson stýrir ÍBV sem er búið að vinna Lengjudeild kvenna.
Jón Ólafur Daníelsson stýrir ÍBV sem er búið að vinna Lengjudeild kvenna. vísir/valur páll

ÍBV er sigurvegari Lengjudeildar kvenna í fótbolta og mun því spila á ný á meðal þeirra Bestu að ári eftir tveggja ára fjarveru.

ÍBV féll úr Bestu deildinni sumarið 2023 eftir erfitt tímabil. Í kjölfarið var Jón Ólafur Daníelsson ráðinn þjálfari þess og stefnan sett á að komast aftur upp. Það tókst hins vegar ekki í fyrstu tilraun í fyrra.

Allt annað hefur verið að sjá til Eyjakvenna í sumar, sem töpuðu þó fyrsta leik í deildinni. Liðið hefur ekki tapað leik síðan og má segja að fall hafi verið fararheill.

„Eftir það upphófst frábær tími í deild og bikar og greinileg merki þess að við ættum möguleika á því að fara langt í bikarkeppninni og jafnvel alla leið að klára deildina og þetta gekk mjög flott eftir,“ sagði Jón Ólafur.

Eftir tapið í 1. umferð hefur ÍBV ekki tapað leik í Lengjudeildinni og er búið að vinna hana. ÍBV fékk sterka leikmenn fyrir tímabilið, meðal annars Allison Lowrey sem er markahæst í Lengjudeildinni með 21 mark.

„Við fengum góða Bandaríkjamenn sem eru ekki bara góðar í fótbolta heldur gefa heilmikið af sér til yngri leikmanna og eru mjög vel liðnar í samfélaginu. Þetta verður eitt af litlu hlutunum í samspili þess að búa til frábæra liðsheild,“ sagði Jón Ólafur. Hann vill halda erlendu leikmönnum ÍBV fyrir næsta tímabil í Bestu deildinni.

„Samningaviðræður eru í gangi og mér er sagt að það gangi bara vel. Þá ættum við að vera með sama hóp en að sjálfsögðu þurfum við aðeins að auka breiddina. Þetta slapp í sumar á fáum leikmönnum en það gerir það nú bara einu sinni,“ sagði Jón Ólafur.

Viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×