Íslenski boltinn

Sjáðu drauma­mark Tryggva, erfitt víti í rokinu og Valdimar leiða Víking til sigurs

Sindri Sverrisson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson og Nikolaj Hansen unnu vel saman í Víkinni í gærkvöld og fagna hér einu markanna.
Valdimar Þór Ingimundarson og Nikolaj Hansen unnu vel saman í Víkinni í gærkvöld og fagna hér einu markanna. vísir/Diego

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu í mögnuðum 4-3 sigri Vals gegn Aftureldingu í gær og Víkingar skelltu nýkrýndum bikarmeisturum Vestra, 4-1. Öll mörkin má nú sjá á Vísi.

Valur hélt sér á toppnum með sigrinum í gær, eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik. Þórður Gunnar Hafþórsson og Hrannar Snær Magnússon skoruðu mörkin í fyrri hálfleik en á fyrsta korterinu í seinni hálfleik komu Markus Nakkim, Aron Jóhannsson og Jónatan Ingi Jónsson Val yfir. 

Mörkin höfðu verið lagleg en ekkert þó fallegra en það sem Tryggvi skoraði svo beint úr aukaspyrnu. Hrannar Snær minnkaði muninn í lokin úr vítaspyrnu, sem hann þurfti reyndar að taka tvisvar því boltinn vildi ekki haldast kyrr í vindinum.

Sigur Víkinga á nýkrýndum bikarmeisturum Vestra var afar öruggur. Valdimar Þór Ingimundarson var valinn maður leiksins í Stúkunni en hann lagði upp bæði mörk Nikolaj Hansen og skoraði sjálfur eitt. Birkir Eydal minnkaði muninn á 77. mínútu með þrumuskoti í slá og inn en Helgi Guðjónsson innsiglaði sigur Víkings í kjölfarið.

Valur heldur tveggja stiga forskoti á Víking á toppi deildarinnar, eftir 20 umferðir af 27. Deildinni verður skipt upp eftir tvær umferðir og eru Vestramenn í hnífjafnri baráttu um að halda sér í efri hlutanum fyrir skiptingu, í 6. sæti og fyrir ofan KA á markatölu. Þeir eru þó  aðeins fimm stigum fyrir ofan Aftureldingu sem er í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×