Íslenski boltinn

Fylkismenn með þriðja sigur sinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Grétarsson er búinn að kveikja á Fylkisliðinu sem hefur unnið þrjá leiki í röð.
Arnar Grétarsson er búinn að kveikja á Fylkisliðinu sem hefur unnið þrjá leiki í röð. Vísir/ÓskarÓ

Fylkir er á hraðri leið upp töfluna í Lengjudeild karla í fótbolta eftir þriðja sigurinn í röð.

Fylkir vann 2-0 útisigur á HK í Kórnum í kvöld en hafði í leikjunum á undan unnið 4-0 sigur á Grindavík og 4-0 sigur á Keflavík.

Þrír leikir með níu stig af níu mögulegum og markatöluna 10-0. Það lítur út fyrir Arnar Grétarsson sem búinn að finna lausnina á vandræðunum í Árbænum.

Úrslitin réðust þó ekki fyrr en í blálokin.

HK-ingurinn Aron Kristófer Lárusson fékk rautt spjald og dæmt á sig víti á 85. mínútu fyrir brot á Guðmundi Tyrfingssyni.

Pablo Aguilera Simon skoraði fyrra mark Fylkis úr vítinu og stuttu síðar var Benedikt Daríus Garðarsson búinn að koma Fylkismönnum tveimur mörkum yfir.

HK hefði farið langt með að tryggja sig inn í úrslitakeppnina með sigri en liðið er samt enn með þriggja stiga forskot á Keflavík í baráttunni um fimmta sætið sem er það síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni.

Fylkismenn hoppuðu upp um þrjú sæti og eru nú í sjöunda sæti með 20 stig. Það eru samt ellefu stig í sjötta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×