Lífið

Vill brúa bilið milli al­mennings og réttar­kerfisins

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Anna Einarsdóttir er fyrsti TikTok lögfræðingurinn á Íslandi.
Anna Einarsdóttir er fyrsti TikTok lögfræðingurinn á Íslandi. Vísir/Anton Brink

„Það sem ég geri er í raun einfalt: ég reyni að útskýra lögfræði á mannamáli og er aðgengileg,“ segir Anna Einarsdóttir lögfræðingur. En bak við þessa einföldu nálgun liggur bæði hugrekki og ný hugsun – að opna dyr réttarkerfisins fyrir almenningi. Í dag er hún orðin þekkt fyrir að brjóta niður múra milli lögfræðinnar og almennings – bæði á TikTok og í nýjum hlaðvarpsþáttum um íslensk sakamál sem ber heitið True crime Ísland.

Upphafið

Anna útskrifaðist með MA-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands á seinasta ári. Hún byrjaði tiltölulega seint í laganámi miðað við marga og hafði þá þegar komið víða við á vinnumarkaðanum. Hún starfaði sem flugfreyja, rak lengi líkamsræktarstöð og vann á neyðarskýli við Grandagarð fyrir yngri heimilislausa karlmenn sem glíma flestir við flókinn og erfiðan vímuefnavanda.

„Samhliða laganáminu byrjaði ég að vinna og læra af öðrum frábærum lögmönnum sem heyra undir Lögberg lögmannstofu í Skipholti og ég fann það fljótt að ég vildi fara út í sjálfstæðan rekstur. Og það leiddi til þess að ég og mín besta vinkona úr skólanum, Kolka B. Hjaltadóttir, stofnuðum okkar eigin stofu í Lögbergi; Kratos,“ segir Anna en þess ber að geta að nafnið Kratos kemur úr grískri goðafræði og er persónugervingur valds, styrks og yfirráða. Þar vinnum við báðar í dag við fjölbreytt lögfræðistörf og líka ýmis verkefni fyrir aðra lögmenn.

Fyrir tæpum tveimur árum byrjaði Anna nýta TikTok sem vettvang til að fræða almenning um lögfræði og réttindi, til að auka aðgengi að lögfræðinni og veita fólki innsýn í réttarsvið sem snerta daglegt líf.

Verandi móðir þriggja unglinga segist Anna hafa tekið eftir hversu öflugur miðill TikTok getur verið þegar kemur að því miðla efni til fjöldans- en lögfræði er allajafna þurrt, flókið og erfitt að skilja.

„Ég hef tekið eftir því að það er algengt að foreldrar setja út á samfélagsmiðla- og símanotkun hjá krökkum í dag. Ég vill frekar reyna að skilja dætur mínar og þeirra heim sem er bara að þróast og breytast frá því að ég var krakki. Það er staðreynd að krakkar nota síma meira en áður og eru að mörgu leyti háð símanum sínum en það er líka vegna þess að með þessu tæki vita þau hvað klukkan er, finna og greiða í strætó, fylgjast með heimanámi, borga í verslunum, skoða stundatöflur, finna allt í tengslum við námið sitt og tómstundir og ég gæti talið endalaust . Og að sama skapi er þróunin þannig að auglýsingar eru að færast yfir á samfélagmiðlana. Þannig að í staðinn fyrir að skamma þær eða banna þeim að vera með Tiktok fór ég að stúdera forritið. Ég tók eftir því að það var enginn lögfræðingur á Íslandi að nýta þennan miðil til að koma vinnunni sinni og þessu efni á framfæri þannig að ég ákvað að vera fyrsti TikTok lögfræðingurinn á Íslandi.“

Fyrsta TikTokið var síðan til í hálfgerðir fljótfærni.

„Einn daginn var ég í héraðsdómi ásamt Sigrúnu Jóhannsdóttur lögmanni sem ég hef unnið mikið fyrir og lært mjög mikið af. Ég man bara eftir að hafa setið þarna inni og hugsað um þennan stað sem ég var á; Héraðdómur Reykjavíkur, þetta gamla og drungalega hús sem svo margir labba framhjá á hverjum degi en færri vita námkvæmlega hvað fer fram þar inni, jafnvel þó það sé ólæst og opið öllum. Þetta er svo framandi bygging og svo mikil dulúð yfir henni. Einhvern veginn þannig kviknaði þessi hugmynd, að taka upp myndskeið á símann og sýna öllum hvernig héraðsdómur lítur út. Það eru margir sem þurfa að mæta í héraðsdóm einhverntímann á lífsleiðinni til dæmis sem vitni og flestir verða virkilega stressaði því þeir vita ekkert hverju þeir eiga von á. Svo fengu TikTok myndskeiðin bara svo góð viðbrögð og mér finnst þetta svo gaman.“

@anna.logvis

Kíktu með okkur inn í þetta dularfulla hús. Fullt af fólki labbar þarna framhjá á hverjum degi en mjög fáir fara þarna inn. District court in Reykjavik Iceland.

♬ Aesthetic - Tollan Kim

Fólk sækir í fræðslu

Í myndskeiðunum á Tiktok hefur Anna tekið fyrir margvísleg viðfangsefni sem eiga það sameiginlegt að snúa að lagalegum réttindum og lögfræðilegum álitaefnum með einum eða öðrum hætti.

„Ég hef tekið eftir því að sú vitneskja og fræðsla sem fólk sækist mest eftir er það sem snýr að réttindum þeirra, og þá sérstaklega þau réttindi sem snúa að samskiptum við yfirvöld - og þá sérstaklega lögregluna,“ segir Anna en hún hefur meðal annars tekið fyrir réttindi einstaklings við handtöku, réttindi brotaþola og vitna í sakamálum, réttindi einstaklinga þegar kemur að líkamsleit lögreglu eða haldlagningu muna.

Hún segir algengt að einstaklingar séu ekki fyllilega meðvitaðir um réttindi sín – en að sama skapi sé þetta ekki alveg svart og hvítt.

„Ef við tökum sem dæmi: Má lögreglan framkvæma líkamsleit? Já ef þú ert handtekinn má hún framkvæma öryggisleit á þér. En ef lögreglan stoppar þig á meðan þú ert að ganga niður Laugaveginn á venjulegum laugardegi?– þá nei.“

Anna kveðst jafnframt hafa tekið eftir að margir einstaklingar byggja lögfræðiþekkingu sína á því sem þeir hafa kynnst úr bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum – það er að segja, úr bandaríska réttarkerfinu.

„Og fólk er mjög oft að spyrja hvort þetta sé eins hér á landi. En þetta er tvennt mjög ólíkt; bandaríska og íslenska réttarkerfið. Það eru heldur ekki allir sem gera sér grein fyrir því að lögmenn á Íslandi – þeir sem fara í dómssal og flytja mál – þeir eru í raun bara lítill hluti af stéttinni. Það eru allskonar mál sem koma inn á borð lögmanna eða lögfræðinga sem enda ekki fyrir dómstólum. Meirihluti lögfræðinga eyða ekki deginum inni í dómssal, þeir eru á skrifstofunni sinni eða að vinna inni í fyrtækjum, hinum ýmsu stofnunum og ráðuneytum.“

Í myndskeiðunum á Tiktok hefur Anna tekið fyrir margvísleg viðfangsefni sem eiga það sameiginlegt að snúa að lagalegum réttindum og lögfræðilegum álitaefnum með einum eða öðrum hætti.Vísir/Anton Brink

Mannlega hliðin

Í dag er hún með hátt í fimm þúsund fylgjendur á TikTok en tæplega tíu þúsund samtals á samfélagsmiðlum.

„Ég bjóst ekki við svona miklum viðbrögðum svona fljótt. Engan veginn. Ég hef meira að segja lent í því að verið stoppuð úti á götu og í sundi af fólki sem hefur verið að fylgjast með mér en það er alltaf virkilega jákvæð viðbrögð sem ég fæ. Dætur mínar eru líka oft stoppaðar og spurðar hvort „Anna.logvis“ sé mamma þeirra. Ég fæ mjög mikið af skilaboðum, það líður ekki dagur án þess að ég fá skilaboð á Tiktok eða tölvupósta frá hinum eða þessum í tenglsum við TikTok.

 Fólk er með allskyns pælingar og spurningar eða vill deila með mér einhverju sem það hefur lent í. Það er líka mikið af krökkum og unglingum sem hafa verið að senda mér skilaboð. Spurningar eins og: „Vinur minn lenti í það var leitað á honum af lögreglunni, má þetta? eða „Ég vill setja mig í gjaldþrot hvernig geri ég það? eða „Mig langar að stofna fyrirtæki, hvernig fer ég að því?“ Ég fæ allan skalann, allskyns spurningar. En ég fæ líka vinnu og mikið af verkefnum í gegnum miðilinn.“

Myndskeiðin sem Anna birtir á TikTok snúa þó ekki einungis að lögfræði heldur deilir hún líka með fylgjendum sínum hvað hún er fást við í sínu hversdagslega lífi.

„Mér fannst nefnilega mikilvægt að koma með persónulegt efni inn á milli. Af því að hvort sem þú ert dómari eða lögmaður eða læknir eða heimavinnandi móðir eða hvað annað; við erum öll persónur og við erum öll mannleg. Þó þú sért með eitthvað starfsheiti eða titil þá ertu samt manneskja undir niðri. Mig langaði að brjóta niður múra. Ég er jú lögfræðingur - en ég er líka manneskju, ég er móðir, dóttir, vinkona og svo margt annað.“

True Crime Ísland

Á dögunum kom út fyrsti þátturinn af True Crime Ísland, nýjum hlaðvarpsþáttum þar sem farið yfir íslensk sakamál og leitast við að útskýra dóma og íslenska réttarkerfið á mannamáli.

Anna kemur að þáttunum ásamt vinkonu sinni og samstarfskonu Kolku B. Hjaltadóttur. Þær eru báðar lögfræðingar - og með þeim er Guðlaugs Ásgeirsdóttir, sem kemur að þáttunum sem nokkurskonar “talsmaður“hins almenna borgara.

Í fyrstu seríunni af True Crime Ísland verða tekin fyrir nýleg manndrápsmál á Íslandi þar sem karlmenn eru gerendur – og fórnarlömb. Markmiðið er að gefa hlustendum innsýn í raunveruleg sakamál og dýpri skilning á íslenska réttarkerfinu.

„Hugmyndin að True Crime Iceland spratt í raun upp frá samtölum á milli mín og Kolku. Við tvær höfum endalausa og óbilandi þörf á því að tala um lögfræði, við getum talað um lögfræði allan sólarhringinn á meðan fjölskylda okkar og vinir hafa engan áhuga á því. Við erum stöðugt að hringja í hvor aðra og senda skilaboð á hvort aðra og ræða dóma og allskyns mál út í eitt og erum stöðugt að henda á milli allskonar hugmyndum og pælingum,“ segir Anna.

„Upphaflega var hugmyndin að búa til hlaðvarp sem sneri að lögfræði, fyrst og fremst. En síðan fórum við að þróa þetta og þá fæddist þessi hugmynd að fjalla um dóma; semsagt, að fjalla um íslensk sakamál þar sem dómurinn sjálfur er skoðaður og krufinn og allt útskýrt á mannamáli. Rétt eins og með Tiktok myndböndin þá langaði mig að búa til þessa „brú“ á milli lögfræðinnar og almennings.“

Í þáttunum er fjallað um málin alfarið út frá opinberum gögnum sem eruð aðgengileg öllum - og ræða þau út frá lögfræðilegu sjónarhorni.

„Við leggjum okkar fram með að fara vel með þessar heimildir. Með þessum hætti er hugsanlega hægt að vekja traust almennings á réttarkerfinu– og jafnframt varpa ljósi á hina og þessa vankanta og galla í réttarkerfinu. Það sem vakir fyrir okkur er að draga úr rangfærslum og fordómum - enda er öll fræðsla til þess fallin að draga úr fordómum. Opin umræða er líka visst aðhald fyrir dómstólana – og lögregluna sömuleiðis, og það er brýnt að veita öllu valdi aðhald. Af því að þar sem hvílir leynd – þar er spilling.“

Í framtíðinni stefna þær stöllur á að fjalla meðal annars um mál sem snúa að ósakhæfum gerendum, kvenkyns gerendum, málum þar sem karlmenn eru gerendur og konur fórnarlömb – og mál sem snúast um önnur afbrot, til að mynda fjármunabrot og skattalagabrot.

„Það eru óteljandi mál þarna úti sem er hægt að kryfja til mergjar, það er til dæmis mikið af málum sem komu í kjölfar bankahrunsins,“ segir Anna.

Sakamálin heilla

Anna hefur sinnt fjölbreyttum lögfræðiverkefnum fyrir einstaklinga og fyrirtæki; meðal annars við skaðabótamál, samningagerð, bótakröfur vegna þvingunaraðgerða lögreglu, fjárskiptasamninga, samskipti við stjórnvöld og fleira. Þá hefur hún unnið með frumkvöðlum við stofnun fyrirtækja og uppsetningu rekstrarforms og skjalagerð.

„En mér finnst sakamál eiga vel við mig. Sakamálaréttarfar er lifandi fag sem snýr að fólki. Og það vantar held ég alltaf góða verjendur, og þá sérstaklega kvenkyns verjendur. Það er mikið af góðum kvenkyns verjendum þarna úti en þær eru ekki jafn sýnilegar og karlmenns verjendur. Það er reyndar áhugavert að konur eru ríkjandi stétt innan lögfræðinnar í dag – þegar ég var í laganáminu voru um það bil sjötíu prósent nemenda kvenkyns. En á sama tíma er þetta karllæg stétt.“

Anna hefur mikinn áhuga á sakamálaréttarfari.Vísir/Anton Brink

Líkt og fyrr segir útskrifaðist Anna útskrifaðist með MA-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands á seinasta ári en hún stefnir á að útskrifast með málflutningsréttindi núna í haust ef tími gefst, en annars næsta vor. Hún hefur sem fyrr segir komið víða við; síðasta starfið sem hún sinnti áður en hún fór í lagadeild var í gistiskýlinu á Granda fyrir unga karlmenn sem eru heimilislausir og með mikinn og oft flókinn vímuefna vanda. Þar er unnið eftir skaðaminnkandi hugmyndarfræði. Hún hefur kynnst öllu litrófi mannlífsins í gegnum tíðina.

„Ég hef fundið fyrir því að bakgrunnurinn minn vinnur með mér; og hefur gert það að verkum að fólk á auðveldara með að leita til mín. Ég hef séð svo margt ogég hef kynnst allskonar fólki. Og ég hef orðið vitni að margskonar óréttlæti. Við erum öll manneskjur. Við eigum öll okkar sögu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.