Innlent

Fundu villu­ráfandi ferða­menn nærri skálanum í Land­manna­laugum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Landmannalaugum. Myndin er úr safni.
Frá Landmannalaugum. Myndin er úr safni. Vísir/Kjartan

Björgunarsveitir af Suðurlandi leituðu að tveimur ferðamönnum sem villtust á göngu á milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers í gærkvöldi. Mennirnir fundust heilir á húfi ekki fjarri skálanum í Landmannalaugum að ganga ellefu í gærkvöldi. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út.

Ferðamennirnir hringdu í neyðarlínu um klukkan átta í gærkvöldi en ekki var ljóst af samskiptunum við þá hvar þeir væru eða á hvaða leið. Staðsetningargögn bentu til þess að síminn sem þeir hringdu úr væri á ferð að Landmannalaugum, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg. Þoka og rigning var þá á svæðinu.

Skálaverðir í Landmannalaugum og björgunarsveitarfólk hóf leit að mönnunum og gengu frá Laugum í átt að Hrafntinnuskeri. Gekk það fram á menn sem lýsingin gat átt við um klukkan hálf ellefu. Þeir voru þá ekki langt frá skálanum í Landmannalaugum.

Björgunarsveitarmönnum sem ekki voru komnir á staðinn var þá snúið við. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar aftukölluð en hún hafði verið boðuð með búnað til þess að miða út staðsetningu símtækis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×