Lífið

Er í lagi að fróa sér yfir nektarmyndum af fyrr­verandi?

Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir skrifar
Gott er að taka samtalið við maka sinn um hvað gera skal við nektarmyndir ef sambandinu lýkur.
Gott er að taka samtalið við maka sinn um hvað gera skal við nektarmyndir ef sambandinu lýkur. Getty

Kannast þú við það að hafa sent maka eða bólfélaga mynd af þér? Stundum eru þetta hversdagslegar sjálfur sem við sendum til að deila augnablikinu. Stundum eru þetta kynferðislegar myndir sem eiga að kveikja á löngun eða kynferðislegum áhuga. Í báðum tilfellum erum við að treysta einhverjum fyrir líkama okkar.

En hvað gerist þegar sambandinu lýkur? Hversu lengi er í lagi að eiga myndir sem þú fékkst sendar? Er eðlilegt að skoða þær löngu seinna og jafnvel fróa sér yfir þeim? Og hvað breytist þegar þú byrjar í nýju sambandi?

Í viðtölum við skjólstæðinga mína koma reglulega upp umræður sem tengjast myndsendingum. Bæði þegar brotið hefur verið á fólki með dreifingu mynda en einnig hafa komið fram allskonar vangaveltur um hvaða reglur gilda um myndir sem þeim hafa verið sendar eða þau sent.

Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Lesendur eru hvattir til þess að senda Aldísi spurningar í spurningaformi neðst í pistli.

Lögin eru skýr en hvað með það sem fellur ekki undir lögin?

Á Íslandi er ólöglegt að taka kynferðislegar myndir af öðrum, deila slíku efni og senda óumbeðnar kynferðislegar myndir á aðra án leyfis. Þá má heldur ekki hóta að dreifa slíku efni. Þetta allt kallast stafrænt kynferðisofbeldi.

Í lögum er hins vegar ekkert fjallað um hvað skal gera við myndir eftir að sambandi lýkur. Þar koma inn spurningar um siðferði og virðingu. Myndir sem þú færð sendar eru alltaf eign þess sem sendi þær. Yfirleitt gefur myndsending í skyn að viðkomandi treysti þér til að meðhöndla myndina á viðeigandi hátt. Þegar sambandi lýkur er ekki sjálfgefið að þú getir átt eða skoðað áfram myndir af fyrrverandi.

Hvenær á að eyða þeim?

Vandinn er sá að við ræðum sjaldan þessar myndir og hvað við viljum að sé gert við þær að sambandi loknu. Það er ekki óalgengt að fólk eigi erfitt með að eyða myndum af fyrrverandi maka eða bólfélaga. Í samtölum mínum við fólk kemur oft í ljós að þau líta á myndirnar sem gjöf til þeirra og því megi halda áfram að skoða þær, jafnvel löngu eftir að sambandi lýkur. Einnig hefur fólk mjög ólíkar skoðanir á því hversu löngu eftir sambandsslit skuli eyða myndum. Er það strax? Eftir mánuð? Þrjá mánuði? Hálft ár? Eða má eiga þær þar til þú byrjar í nýju sambandi eða hittir nýja manneskju?

Það er ekki ólöglegt að halda í myndir og jafnvel nota þær í sjálfsfróun. En spurningin er þessi; hvort finnst þér mikilvægara að halda í gömlu myndirnar eða bera virðingu fyrir því trausti sem fyrrum maki eða bólfélagi sýndi þér? Best væri auðvitað að taka samtalið við viðkomandi!

Mikilvægt er að pör ræði saman áður en nektarmyndir eru sendar til hvors annars.Getty

Tökum samtölin, líka þau sem geta verið óþægilegri

Í samböndum og/eða með bólfélögum er því góð regla að ræða þessi hluti. Hvernig þið viljið nálgast slíkar myndir í ykkar sambandi. Fyrir sum er mikilvægt að myndum eða mynböndum sé eytt strax á meðan önnur eru opin fyrir því að fyrrverandi eigi þetta áfram. Skýr samskipti eru alltaf best! „Ég vil biðja þig um að eyða þeim myndum sem ég hef sent þér“ eða „það er í lagi mín vegna ef þú eyðir ekki þeim myndum sem ég hef sent þér“. 

Sömuleiðis getur verið þægilegt að fá skýr skilaboð frá fyrrverandi að búið sé að eyða öllum myndum eða að fengið sé samþykki fyrir því að viðkomandi eigi áfram myndirnar.

Að lokum snýst þetta um virðingu. Myndirnar á skjánum eru ekki bara einhverjir pixlar á skjá heldur tákna þær traustið sem fyrrverandi bar til þín. Það traust er mikilvægt að fara vel með <3






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.