Áskorun

Hjóna­skilnaðir: „Þrjár leiðir færar til að semja um líf­eyris­réttindi“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Áður þurfti fólk að bíða eftir því að lögskilnaður gæti gengið í gegn, en þess þarf ekki lengur segir Pétur Steinn Guðmundsson lögmaður hjá Deloitte Legal og sérfræðingur í skattamálum. Sem í dag leiðir okkur í gegnum það helsta sem gott er að vita um hjónaskilnaði fólks sem er gift.
Áður þurfti fólk að bíða eftir því að lögskilnaður gæti gengið í gegn, en þess þarf ekki lengur segir Pétur Steinn Guðmundsson lögmaður hjá Deloitte Legal og sérfræðingur í skattamálum. Sem í dag leiðir okkur í gegnum það helsta sem gott er að vita um hjónaskilnaði fólks sem er gift. Vísir/Vilhelm

„Flestir ganga frá fjárskiptisamningi án þess að samið sé sérstaklega um lífeyrisréttindi, en þó eru samkvæmt lögum þrjár leiðir færar til að semja um lífeyrisréttindi milli hjóna,“ segir Pétur Steinn Guðmundsson, lögmaður hjá Deloitte Legal og sérfræðingur í skattamálum.

Sem í dag mun stikla á stóru með okkur, um allt það helsta sem gott er að vita um fjárskiptasamkomulag hjóna. Í þetta sinn verður ekki fjallað um skilnað fólks í sambúð, heldur fjárskiptasamninga hjóna sem eru gift.

„Nú hefur lögunum verið breytt þannig að hjón geta samið um að lögskilnaður gangi í gegn strax, ólíkt því sem áður var,“ nefnir Pétur Steinn sem dæmi um breytingar sem hafa orðið á hjúskaparlögunum hin síðustu ár.

Því áður þurfti að koma til hjúskaparbrot, líkamsárás eða tvíkvæni til þess að lögskilnaður fengist samþykktur hjá sýslumanni með hraði.

„Með breytingunum er ríkið ekki lengur að skipta sér af því hvort hjón séu saman eða ekki því nú gengur þetta þannig fyrir sig að fólk getur tekið ákvörðun um það sjálft hvort það vilji strax lögskilnað. Rétt eins og fólk tekur ákvörðun um það sjálft að vilja ganga í hjónaband.“

Í Áskorun fjöllum við um erfiðu málin en líka allt það jákvæða og góða sem getur byggt okkur upp eða hvatt aðra til dáða. Áskorun fjallar á mannlegan hátt um öll lífsins verkefni.

Fyrstu skrefin

Pétur Steinn hefur áður verið okkur innan handar um ýmiss mál og fljótlega munum við einnig fjalla um skilnaði sambúðarfólks, þar sem allt önnur viðmið og reglur gilda.

Í dag er hins vegar ætlunin að ræða fjárskiptasamninga hjóna þar sem meginreglan er helmingaskipti eigna og skulda.

Mislangan tíma og misvel getur gengið að ná lendingu í þeim samningi sem hjón þurfa að gera til að lögskilnaður gangi í gegn. Millibilstímabil getur því myndast, en fyrir fyrstu skrefin skiptir líka máli samkvæmt lögum, að rétt sé staðið að málum.

„Þegar hjón hafa ákveðið að skilja eru að meginefni tvö atriði sem þarf að hafa í huga sem næstu skref. Skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður,“ segir Pétur Steinn.

En hvað ef annar aðilinn vill ekki skilja?

„Í 34. gr. hjúskaparlaga kemur fram að ef annað hjóna telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap á það rétt á skilnaði að borði og sæng. Hinn aðili hjónabandsins þarf að sæta þeirri ákvörðun makans og verður sýslumaður að sinna þeirri kröfu sem fram er komin og veita leyfið að öðrum skilyrðum uppfylltum,“ svarar Pétur Steinn og bætir við:

„Ef ekki er sátt milli aðila um að óska lögskilnaðar, á hvor maki fyrir sig, rétt á lögskilnaði þegar hálft ár er liðið frá því leyfi til skilnaðar að borði og sæng var veitt. Skiptir þannig afstaða hins aðila hjónabandsins ekki máli.“

Það sem gerist þegar fólk skilur að borði og sæng, er að skuldbindingar fólks samkvæmt hjúskaparlögum eiga ekki lengur við. Þetta þýðir að eign sem annar aðilinn kaupir eftir skilnað að borði og sæng, telst ekki til hjúskapareignar Í dæmaskyni má nefna bíl eða íbúð Sama gildir um skuldir.

En hvað með aðrar skyldur? Sem oft getur verið flókið að ræða um á þessu tímabili, sérstaklega þegar samskipti hjóna í skilnaðarferli eru ekki góð. Tökum ímyndað dæmi:

Annar aðilinn flytur út af heimili en hinn býr um tíma áfram á heimili, ásamt börnum. 

Framfærsluskylda foreldra er jöfn en allur gangur getur verið á því, hversu auðvelt eða erfitt það er fyrir umrædd hjón að ræða saman um daglegar þarfir, kostnað eða rekstur heimilis þar til lögskilnaður hefur gengið í gegn. 

Eru einhver úrræði fyrir fólk í því millibilsástandi sem myndast?

„Já,“ svarar Pétur Steinn og útskýrir:

„Sýslumanni ber að skerast í leikinn ef beiðni kemur fram, ef hjón ná ekki að semja um það sín á milli, að rekstur heimilis eða framfærsla barna (meðlag) sé tryggð á meðan verið er að semja um fjárskiptasamning, forræði og fleira. Það sem þetta þýðir er að annar aðilinn getur þá leitað til sýslumanns með ofangreint erindi, sem sýslumanni ber að fylgja eftir með úrskurði. Þá kann að koma hér einnig til skoðunar framfærsla til þess maka sem hefur haft minni tekjur og er með börnin eftir að skilnaður að borði og sæng hefur verið veittur.“

Það skiptir engu máli hvort annar aðilinn er tekjuhærri eða hafi átt meira en hinn aðilinn þegar gengið var í hjónaband; Meginreglan er helmingaskipti. Á þessu geta verið einstakar undantekningar ef fyrir liggja kaupmálar eða erfðaskrár. Þá getur aðili óskað eftir því að eignir verði undanskildar í skiptum, til dæmis lífeyrisréttindi.Vísir/Vilhelm

Eignir, skuldir og séreignir

Pétur Steinn segir fólk ekki þurfa að hræðast það almennt, að upplýsingar um eignir og skuldir séu ekki sýnilegar. Samsköttun og skattframtöl ættu að vera þau gögn sem fólk getur treyst á að endurspegli eignastöðu, þar á meðal eignarhluta fólks í félögum, hlutabréfum og svo framvegis.

„Í skattframtölum hjóna koma þessar upplýsingar allar fram,“ segir Pétur Steinn og bætir við að undantekningin á þessu væri þá helst sú að einhver væri að reyna að svíkjast undan skatti.

„Meginreglan er sú að eignir og skuldir skiptast til helminga sem þýðir að þá eru skráðar allar eignir og allar skuldir og svo síðan deilt niður á hjónin til helminga. Það kemur fyrir að skiptingin verður ekki alveg jöfn og greiðir þá sá sem hefur fengið hærri úthlutun, mismun til hins makans með peningum, þannig að skiptin verði jöfn.“

Á þessu eru þó undantekningar: Séreignir. En til séreigna flokkast eignir sem fólk hefur gert kaupmála um, áður en gengið er í hjónaband, eða vegna ákvörðunar hjóna á síðari stigum. Séreignir geta líka verið eignir sem fólk erfir, og eru samkvæmt erfðaskrá skuldbundnar til að vera séreignir erfingja.

Það sem fólk getur hins vegar ekki metið sem séreign, eru hlutir eða gjafir sem ekki eru tilgreindar sem séreign í kaupmála eða erfðaskrá.

Það sama á við um eignir sem viðkomandi átti, þegar fólk gekk í hjónaband; Mögulega þar sem annar aðilinn átti töluverðar eignir umfram hinn.

„Allar eignir hjóna verða hjúskapareignir nema ef um séreignir er að ræða,“ segir Pétur Steinn en bætir við:

Hægt er að tímabinda kaupmála, þannig að til dæmis séreign verði hjúskapareign ef hjúskap lýkur með andláti. 

Eignin kemur þannig ekki til skipta við skilnað en við andlát færist hún úr séreign hins látna til hjúskapareigna, en þá hefur makinn rétt til setu í óskiptu búi og fer með yfirráð eigna þess.“

Nánar má lesa um kaupmála og erfðaskrá í neðangreindum viðtölum við Pétur Stein.

Lífeyrissjóðir og séreignarsparnaður

Í mörgum tilfellum, getur fjárhagur fólks í hjónabandi verið afar ólíkur. Þar sem annar aðilinn er tekjuhærri en hinn og hefur því samhliða áunnið sér meiri lífeyrisréttindi og/eða eign í séreignarsparnaði.

Um lífeyri er hægt að semja sérstaklega og þar eru þrjár leiðir færar:

Að skipta lífeyri til helminga. Sem þó falla niður við andlát sjóðsfélaga.

Að semja um skiptingu áunninna réttinda; Þessa ákvörðun verða hjónin að taka sameiginlega áður en lífeyrir hefst eða eigi síðar en eldri maki verður 65 ára og hafi þokkalega heilsu.

Að semja um ráðstöfun iðgjalds, sem oft eru kölluð framtíðarréttindi. Samkomulagið felur þá í sér að samið er um skiptingu áunna réttinda og framtíðarréttinda.

„Það er möguleiki að hnekkja þessu síðastnefnda en það er gengið út frá því að þetta sé framtíðarskipulag. Þannig getur verið að ef hjón ákveða að skipta réttindum sínum en töku lífeyris er ekki hafin og þau ákveða að fella samkomulagið niður, þá verður litið svo á að öll réttindi sem samið var um séu niður fallin og staða hjónanna eins og áður en samningurinn var gerður upphaflega,“ útskýrir Pétur Steinn.

Pétur Steinn segir þó ekki algengt að fólk tilgreini samkomulag um lífeyrisréttindi sérstaklega í fjárskiptasamningum sínum.

Enda er hugmyndafræðin þannig að í hjúskaparlögunum er ákvæði þar sem annar aðilinn getur krafist þess að halda eignum utan skipta og eru lífeyrisréttindi þar á meðal.“

Að þessu sögðu, segir Pétur Steinn þó ekkert óeðlilegt að fólk ræði einnig þessi mál, þegar fjárskiptasamningur er gerður.

„Í ljósi þess að annar aðilinn getur krafist þess að halda lífeyrisréttindum utan skipta, er ekkert sjálfgefið að um lífeyri gildi helmingaskiptareglan. En það er ekki óeðlilegt að þessi sjónarmið verði skoðuð við frágang fjárskiptasamnings.“

Lokafrágangur og flækjustig

Pétur Steinn segir að ýmsu að huga í því ferli sem hjónaskilnaður er. Enda geti það ferli verið æri misjafnt hjá fólki.

Flækjustig geti myndast, til dæmis þegar fólk sem þegar hefur óskað eftir skilnaði að borði og sæng og jafnvel gert með sér fjárskiptasamning, en lögskilnaður er ekki genginn í gegn.

En almennt gildir að lögskilnaður gengur í gegn að sex mánuðum liðnum eftir að skilnaður að borði og sæng varð virkur. Eins gildir enn að ef um hjúskaparbrot, ofbeldi eða tvívæni er að ræða, er hægt að óska eftir því að lögskilnaður taki gildi strax að loknum staðfestum fjárskiptum.

En tökum dæmi um mál, þar sem hjón taka saman á ný; Til skamms tíma.

Sem dæmi um slíkt, nefnir Pétur Steinn mál sem Hæstiréttur Íslands dæmdi í árið 2008. Í því máli, voru hjón í annað sinn á þremur árum að ganga í gegnum skilnað sín á milli; Fyrst með skilnaði að borði og sæng og fjárskiptasamningi árið 2003, án frágangs á lögskilnaði. Síðan aftur árið 2006 með sambúð í millitíðinni, þar sem ætlunin var að reyna að láta á það reyna, hvort hjónabandið gæti gengið upp.

Við síðari skilnað óskaði konan eftir því að fá fasteign og bifreið búsins, því við upphaflegan skilnað og fjárskiptisamning sem fólkið gerði sín á milli árið 2003, hafði hún tekið lán til að kaupa hlut mannsins í eign þeirra. Maðurinn taldi hins vegar að allar eignir ættu að skiptast til helminga, en dómurinn féll þó konunni í vil og var beitt skáskiptareglu hjúskaparlaga.

Pétur Steinn segir Hæstarétt Íslands hafa fellt ógrynni dóma sem hægt er að horfa til, vegna deilumála sem upp hafa komið við hjónaskilnaði. Stundum þurfi til dæmis að taka í reikninginn, hversu lengi sambandið hefur varað.

Hæstiréttur Íslands hefur til dæmis staðfest að ef sambúð hefur varað í langan tíma, en hjónaband í skamman tíma beri að meta allan tímann sem aðilar voru með sameiginlegt heimili.“

Fljótlega mun Pétur Steinn fara yfir það með okkur, hvaða reglur gilda um skilnað sambúðarfólks sem ekki er gift. Því í þeim tilvikum gilda allt önnur lög og/eða réttindi fólks. Hægt er að hnekkja fjárskiptasamningi giftra hjóna, sé það gert innan árs og aðili getur fært sönnur á að samningur hafi verið óréttlátur.Vísir/Vilhelm

Pétur Steinn segir börn ekki blandast með beinum hætti í fjárskiptasamning hjóna. Það þekkist þó að samhliða fjárskiptasamningi sé samið sérstaklega og frá því gengið að börnin, sem erfingjar fái fyrirframgreiddan arf.

Fjárskiptasamning sem fyrir liggur þarf sýslumaður að staðfesta með veitingu lögskilnaðar

En hvað ef hjón eru eignarlaus? Og skuldlaus?

„Þá er nægjanlegt að yfirlýsing hjónanna um eignaleysi liggi fyrir í stað fjárskiptasamnings, sem þó skal staðfest fyrir sýslumanni eða dómara.“

Þegar fjárskiptisamningur hefur verið staðfestur af dómara eða sýslumanni, eru eignir og skuldir makanum óviðkomandi með öllu.

Er hægt að hnekkja fjárskiptisamning eða óska eftir breytingum á honum eftir á?

„Í ákvæði 95. gr. hjúskaparlaga er opnað fyrir að fella fjárskiptasamning að nokkru leyti eða öllu úr gildi, ef hann er bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma þegar til hans var stofnað,“ segir Pétur Steinn en bætir við:

Þetta verður aðeins gert innan árs frá því leyfi til skilnaðar var veitt, fyrir dómi, enda er um að ræða samning sem staðfestur var af hjónunum við skilnað. 

Sá sem heldur því fram að samningurinn sé bersýnilega ósanngjarn hefur sönnunarbyrði fyrir því fyrir dómi.“


Tengdar fréttir

Hjónabönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“

„Þegar fólk hefur verið saman í áratugi er ekkert ólíklegt að ýmislegt hafi safnast í gremjubankann í gegnum tíðina,“ segir Íris Eik Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi fjölskyldu- og sálfræðiþjónustunnar Samskiptastöðin.

Hjónabönd 50+: „Ekki gott ef gremjubankinn stækkar og stækkar“

„Þegar fólk hefur verið saman í áratugi er ekkert ólíklegt að ýmislegt hafi safnast í gremjubankann í gegnum tíðina,“ segir Íris Eik Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi fjölskyldu- og sálfræðiþjónustunnar Samskiptastöðin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.