Lífið

Alls­gáður í sjö ár: „Mæli með“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Birgir Hákon fagnar sjö árum edrú.
Birgir Hákon fagnar sjö árum edrú. Vísir/Vilhelm

Rapparinn Birgir Hákon Guðlaugsson fagnaði þeim áfanga í gær að hafa verið án hugbreytandi efna í sjö ár. Hann kveðst hamingjusamur og þakklátur fyrir lífið sem hann lifir í dag.

Í tilefni tímamótanna birti hann færslu á Instagram-síðu sinni: „Langaði að deila með ykkur að það eru 7 ár í dag síðan ég sneri við blaðinu og lagði hugbreytandi efni á hilluna fyrir fullt og allt, þakklæti og hamingja. Mæli með,“ skrifar Birgir við færsluna og hamingjuóskum rignir yfir hann.

111 bjó hann til

Birgir hefur talað opinskátt í fjölmiðlum um erfiða æsku sína; hvernig hann leiddist út í sölu eiturlyfja og þaðan út í handrukkun. Eftir að móðir Birgis greindist með krabbamein sneri hann við blaðinu og fann sér athvarf í tónlistinni. Þar hefur hann unnið úr reynslu sinni og um leið fjallað um harðan raunveruleika íslenskra undirheima.

Fyrsta plata Birgis sem heitir Birgir Hákon kom út árið 2019. Hún vakti töluverða athygli vegna orðstírs hans og naut þar að auki töluverðra vinsælda. Í september í fyrra gaf hann út sína aðra plötu, 111, sem vísar til hverfisins sem hefur mótað hann mest.

„Ég ólst upp á ýmsum stöðum, var mikið á flakki og fór í um tíu grunnskóla. Við vorum í miklu basli þegar ég var yngri,“ sagði Birgir í samtali við Vísi í tilefni útgáfunnar.

Hann upplifði að missa íbúðir, vera heimilislaus og búa tímabundið í sumarbústað: „Svo var ég mikið í Breiðholtinu. Vinur minn flutti þangað og ég fylgdi honum. Ég hef búið víða, en 111 er hverfið sem bjó til Birgi Hákon.“

Hér má hlusta á tónlist Birgis Hákonar á streymisveitunni Spotify.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.