Innlent

Viðvörunarstig hækkað: Auknar líkur á gosi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá síðasta gosi í Sundhnúksgígaröðinni sem hófst í júlí.
Frá síðasta gosi í Sundhnúksgígaröðinni sem hófst í júlí. Björn Steinbekk

Auknar líkur eru á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi í Sundhnúkgsígaröðinni og hefur Veðurstofan hækkað viðvörunarstig. Þetta kemur fram í tilkynningu en þar segir að kvikumagn nái neðri mörkum þess að gos geti hafist eftir tvo daga, á laugardag 27. september.

Segir Veðurstofan að komið hafi í ljós að magn kviku sem þurfi að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi áður en kvikuhlaup eða gos hefst geti verið mismikið. Greining fyrri atburða hafi gert Veðurstofunni kleift að áætla á hvaða bili rúmmál kvikusöfnunar liggi til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi.

Segir að með líkanreikningum sé hægt að áætla að neðri mörk, ellefu milljón rúmmetrar af kviku muni nást á laugardag. Efri mörk séu 23 milljónir rúmmetra og þeim verði náð í kringum 18. desember. Þetta er með þeim fyrirvara að hraði kvikusöfnunar haldist óbreyttur.

Þegar neðri mörkum hefur verið náð telst svæðið komið inn í tímabil þar sem auknar líkur eru á kvikuhlaupi eða gosi á Sundhnúksgígaröðinni. Tímabilið spannar hátt í þrjá mánuði og gos getur hafist hvenær sem er á tímabilinu.

Matið verður endurskoðað ef breyting verður á kvikuinnstreymi eða ef rauntímamælingar Veðurstofunnar sýna skýr merki um kvikuhlaup. Segir Veðurstofa að líklegasti upptakastaður eldgoss sé áfram sá sami, milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×