Hlutabréfaverð taívanska lyfjafyrirtækisins Lotus, sem er meðal annars í eigu fjárfestingafélags Róberts Wessman, hefur rokið upp um tugi prósenta á nokkrum dögum eftir að tilkynnt var um kaupin á Alvogen US.
Það var síðla dags þriðjudaginn 23. september síðastliðinn sem greint var frá því að gengið hefði verið frá samkomulagi um kaup Lotus Pharmaceutical, skráð á markað í Taívan, á öllu hlutafé í New Alvogen Group Holdings fyrr í dag en það bandaríska félag er eigandi að Alvogen US Pharma. Félagið á og rekur eina lyfjaverksmiðju í Norwich, New York fylki, sem er um sextán þúsund fermetrar að stærð, en höfuðstöðvar þess eru í New Jersey.
Með kaupum Lotus á Alvogen US verður til eitt af tuttugu stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims. Áætlaðar tekjur Lotus, sem voru jafnvirði um 600 milljónir Bandaríkjadala í fyrra, eru sagðar geta tvöfaldast við sameininguna en Alvogen verður dótturfélag í samstæðu Lotus.

Róbert Wessman er í dag stjórnarformaður bæði Alvogen og Lotus en Aztiq-fjárfestingafélagið í hans eigu fer með um tíu prósenta hlut í taívanska lyfjafyrirtækinu eftir að hafa selt sig nokkuð niður á undanförnum árum. Fjárfestingafélag Róberts fer beint og óbeint með um 40 prósenta hlut í Alvogen Pharma í Bandaríkjunum, systurfélag Alvotech, á móti fjárfestingafélögunum Temasek og CVC sem komu inn í hluthafahópinn fyrir hartnær einum áratug.
Hækkunin náð daglegu verðþaki þrjá daga í röð
Fjárfestar hafa tekið vel í viðskiptin en gengi bréfa Lotus á markaði í Taívan hefur hækkað um samtals nærri 35 prósent á þremur síðustu viðskiptadögum vikunnar, eða úr 192 taívönskum dölum á hlut í 255 dali. Markaðsvirði félagsins nemur núna um 67 milljörðum taívanskra dala, eða um 2,1 milljarði Bandaríkjadala – sem jafngildir um 260 milljörðum íslenskra króna – og hefur rokið upp um liðlega 500 milljónir dala frá því á þriðjudaginn.
Hlutabréfaverð Lotus hefur hækkað um 9,9 prósent á hverjum degi síðustu þrjá viðskiptadaga. Gengi bréfa skráðra félaga þar í landi lúta verðþaki sem kveður á um að þegar þau hafa hækkað um tæplega tíu prósent innan dags þá stöðvast verðmyndun þeirra við það gengi. Ekki er lokað fyrir viðskiptin en yfirleitt er veltan með þau lítil sem engin eftir að verðþakinu hefur verið ná enda fáir seljendur þá reiðubúnir að selja á því gengi. Mest var veltan með bréf Lotus síðastliðinn föstudag.
Miðað við núverandi markaðsvirði Lotus er eftirstandandi tíu prósenta eignarhlutur Róberts metinn á ríflega 200 milljónir dala. Langsamlega stærsti eigandi Lotus í Taívan, með nærri fjörutíu prósenta hlut, er Innobic Asia, dótturfélag fyrirtækjasamstæðunnar PTT sem er í meirihlutaeigu taílenska ríkisins.
Heildarvirði (e. enterprise value) Alvogen US í sölunni til Lotus er metið á allt að tvo milljarða dala, eða jafnvirði nærri 250 milljarða íslenskra króna. Kaupverðið er greitt að stærstum hluta með reiðufé en einnig forgangshlutabréfum. Innherji hafði áður sagt frá því að unnið væri að sölu á bandaríska samheitalyfjafyrirtækinu og að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda – sem voru um 900 milljónir dala í árslok 2024 – væri áætlað að hlutafjárvirði félagsins í þeim viðskiptum yrði nálægt 1,2 milljarðar dala.