Íslenski boltinn

„Þá fann ég á liðinu að það yrði ekki snúið við“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Helgi Guðjónsson ræddi við Gunnlaug Jónsson eftir að Íslandsmeistaratitillinn var tryggður.
Helgi Guðjónsson ræddi við Gunnlaug Jónsson eftir að Íslandsmeistaratitillinn var tryggður. skjáskot

Íslandsmeistarinn Helgi Guðjónsson segir hugarfarsbreytingu hafa orðið hjá Víkingum eftir skellinn sem þeir fengu í Evrópueinvíginu gegn Bröndby.

„Við töluðum saman og ákváðum að, ef við ætluðum að gera eitthvað af viti í ár, þá þyrfti það að gerast bara um leið. Fórum beint upp á Skaga, til að ná í þrjú stig og keyra okkur í gang almennilega… Þá fann ég á liðinu að það yrði ekki snúið við.“

Klippa: Hugarfarsbreyting eftir tapið gegn Bröndby

Helgi er framherji að upplagi en hefur sinnt hlutverki vinstri bakvarðar allt tímabilið, og verið sáttur við það.

„Mjög sáttur. Sölvi gaf mér traustið í vinstri bakverði á móti Panathinaikos og ég hafði helvíti gaman að því, breyta aðeins til og fara að verjast. Svo hérna heima sækjum við auðvitað töluvert meira, þannig að þetta er ekkert mikil breyting fyrir mig þannig séð. Ég fæ að sækja mikið, maður þarf að verjast aðeins meira, en ég er bara virkilega sáttur með hvernig þetta hefur gengið.“

Helgi skoraði annað mark Víkings í 2-0 sigrinum gegn FH, sem tryggði Víkingum titilinn. Staða hans á vellinum skiptir því ekki öllu máli, svo lengi sem mörkin skila sér.

„Algjörlega. Það er það sem skiptir máli og það hentar mér vel að hlaupa mikið, komast inn í teiginn og skora“ sagði Helgi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×