Lífið

Leik­konur á túr: Fimm verstu rasshausa-ummælin

Sumardag árið 1919 rétti ungverskur læknir húshjálp sinni blómvönd og bað hana um að koma honum fyrir í vasa. Næsta dag voru blómin dauð.

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Vísir/sara

Sumardag árið 1919 rétti ungverskur læknir húshjálp sinni blómvönd og bað hana um að koma honum fyrir í vasa. Næsta dag voru blómin dauð.

Þegar læknirinn komst að því að stúlkan hefði verið á blæðingum skrifaði hann vísindagrein um tortímingarmátt tíða kvenna. Í kjölfarið náði fótfestu sú trú að konur á túr gæfu frá sér eitrið „menotoxin“ sem olli því að gróður visnaði, brauð reis ekki við bakstur og sulta hljóp ekki.

En þótt tíðir kvenna hafi í aldanna rás þótt brestur virðast þær nú skyndilega helsti styrkleiki þeirra.

Atvinnuöryggi leikkvenna

Íslenskar leikkonur þurfa ekki að óttast að gervigreindarleikkonan Tilly Norwood, sem steig nýverið fram á sjónarsviðið, ógni atvinnuöryggi þeirra. Kvað leikstjórinn Baldvin Z gervigreindarleikkonur ekki spennandi kost, því fegurðin í góðum leik fælist í hinu óvænta – eins og leikkonum á túr og í vondu skapi.

Leikkonur tóku ummælin óstinnt upp. Kannski voru þær einfaldlega á túr. Baldvin Z taldi þó öruggast að bakka með það sem hann kallaði „rasshausa-ummæli“ sín, sem hefðu verið „gamaldags“ og „hallærisleg“.

Full ástæða er til að láta Baldvini Z heyra það. Fimm ástæður eru hins vegar til að fagna slíkum rasshausa-ummælum:

1. Rasshausa-ummæli bjóða upp á hlátur í svartnættinu

Eins og í tilfelli Baldvins Z rennur góður ásetningur stundum út í sandinn.

  • Það var tilfinningaþrungin stund þegar ísraelskum gíslum í haldi Hamas var sleppt í vikunni. Á síðasta ári hugðist Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, krefjast frelsunar gíslanna í ræðu með orðunum „return of the hostages“. Ekki tókst betur til en svo að hann kallaði eftir „return of the sausages“ – frelsun pylsnanna.
  • Árið 2017, mitt í „Black Lives Matter“ mótmælabylgju, lék Kendall Jenner í gosdrykkjaauglýsingu þar sem hún stillti til friðar á mótmælum með því að rétta lögreglumanni dós af Pepsi. Auglýsingin þótti gera lítið úr mótmælum svartra í Bandaríkjunum og var tekin úr loftinu á innan við sólarhring.
  • „Dömur mínar og herrar, má ég kynna Pútín forseta,“ sagði Joe Biden þar sem hann bauð Volodymyr Zelensky velkominn á sviðið á NATO fundi til stuðnings Úkraínu á síðasta ári.
  • Ekki tókst betur til þegar Karl Gústaf Svíakonungur kynnti til leiks nýtt barnabarn sitt fyrr á árinu og fór vitlaust með nafn prinsessunnar.

Svíakonungur kvaðst miður sín yfir mistökunum. Rasshausa-ummæli kalla þó sjaldan á svo sterkar tilfinningar.

2. Gott stundargaman

Í bókinni Ekki misskilja mig vitlaust eftir Guðjón Inga Eiríksson má finna lífleg mismæli ýmissa Íslendinga.

  • „Margt smátt gerir eitt lítið,“ fullyrti veitingamaður á Flateyri.
  • Fréttamaður sagði að „heilbrigðisráðherra hafi tekið ákvörðunina að höfðu samræði við lækna“.
  • Annar minnti á „ellefu fréttirnar sem hefjast stundvíslega klukkan 22:30“
  • Frægur athafnamaður sagði að „ekki séu allir peningar til fjár“.
  • Kona af Ströndum óskaði þess að vera „dauð fluga á vegg“.
  • Stjórnmálakona leiðrétti „rangsannindi“ og sakaði ráðherra um að „stinga höfðinu í steininn“.

Rasshausa-ummæli lifa sjaldan lengur en það tekur hláturinn að fjara út. En einstaka sinnum festa þau sig í sessi.

3. Gagnleg við nýyrðasmíð

Orðið rasshaus tók að skjóta rótum í íslenskri tungu á öðrum áratug 21. aldarinnar. Hugtakið „rasshausa-ummæli“ er hins vegar nýtt af nálinni.

Þótt Baldvin Z fagni því kannski ekki að vera smiður þess má hann þakka fyrir að vera ekki kenndur við það:

Þriðjudaginn 23. apríl árið 1991 vaknaði breski viðskiptajöfurinn Gerald Ratner glaður í bragði. Ratners beið sú vegsemd að halda ræðu á samkomu atvinnurekenda í Royal Albert Hall í London, en hann rak vinsæla keðju skartgripaverslana, sem seldi skart á hagstæðu verði.

Gerald Ratner fæddist árið 1949 í London. Hann lifði hátt, keypti sér þyrlu og Porche, ferðaðist um heiminn á fyrsta farrými, gisti í fínustu hótelsvítunum og þrátt fyrir að vera giftur var við margan kvenmanninn kenndur.Getty

Ræða Ratners gekk vel. EN ÞÚ TRÚRI EKKI HVAÐ GERÐIST NÆST. Sakleysisleg spurning áhorfanda í salnum átti eftir að umturna lífi hans. „Hvernig getið þið selt vörurnar ykkar svona ódýrt?“ Ratner hikaði ekki: „Því þær eru andskotans drasl,“ svaraði hann. „Við seljum eyrnalokka sem kosta minna en samloka með rækjusalati – en þeir endast líka skemur.“

Viðskiptavinum skartgripaverslana Ratners var ekki skemmt. Salan hrundi og fyrirtækið varð næstum gjaldþrota. Svo epískt var fall Ratners að í enskri tungu er nú talað um „að gera Ratner“ þegar viðhöfð eru rasshausa-ummæli.

En rasshausa-ummæli eru – eins og afstæðiskenning Einsteins – háð tíma og rúmi.

4) Rasshausa-ummæli minna okkur á að einu sinni var ástandið verra ...

Árið 1632 var ítalski stjörnufræðingurinn Galileo Galilei dæmdur í stofufangelsi fyrir að viðra það sem þá þóttu óttaleg rasshausa-ummæli: Galileo hélt því fram að jörðin snerist kringum sólina en ekki öfugt.

Að sama skapi getur viðtekinn sannleikur gærdagsins verið rasshausa-ummæli dagsins í dag.

5) ... og að heimur batnandi fer

„Húsfreyjustörf eru aldrei leiðinleg – Nema húsfreyjan sé það sjálf,“ sagði í fyrirsögn í dagblaðinu Vísi árið 1955.

Árið 1955 voru húsfreyjustörf aldrei leiðinleg.Tímarit.is

Ummæli formanns Sambands danskra húsmæðrafélaga þóttu sjálfsögð árið 1955. Gæfi einhver í skyn árið 2025 að þætti konu leiðinlegt að skúra væri skýringin sú að hún væri sjálf svo leiðinleg yrði viðkomandi tafarlaust afskrifaður sem rasshaus.

Niðurstaðan er því þessi:

Fyrir slysni fanga rasshausa-ummæli Baldvins Z kjarna þess sem hann vildi sagt hafa: Það eru blæbrigðin sem gefa lífinu lit, mótlætið sem getur af sér nýjar hugmyndir, mislyndið sem leysir úr læðingi sköpunargáfuna, glappaskot sem gera okkur kleift að hlæja á erfiðum stundum. Fegurðin felst í hinu óvænta – eins og leikstjórum sem viðhafa rasshausa-ummæli. Án blæbrigða væri tilveran fullkomin flatneskja.






×