Samstarf

Tengiltvinnari fyrir taugatrekkta

B&L og Ragnheiður Tryggvadóttir
Það sem er sniðugt við Hybrid bíla er að þeir brúa bilið milli hefðbundins eldsneytis og rafmagns þ.e bensínvélin tryggir að ég verð ekki strandaglópur uppi á heiði.
Það sem er sniðugt við Hybrid bíla er að þeir brúa bilið milli hefðbundins eldsneytis og rafmagns þ.e bensínvélin tryggir að ég verð ekki strandaglópur uppi á heiði.

Daglegi díseltrukkurinn minn er ekki beinlínis umhverfisvænn. Plássfrekur í stæði og ólipur innanbæjar en góður langferðabíll. Í hvert sinn sem dísel lítrarnir gusast inn á tankinn fæ ég hinsvegar umhversissóðasamviskubit. Ég veit að rafmagnið er framtíðin en það er bara þetta með drægnikvíðann. Þá sá ég að verið var að frumsýna Renault Rafale E-Tech hybrid SUV. Gæti hann verið eitthvað fyrir mig?

Brúa bilið fyrir taugatrekkta

Það sem er sniðugt við Hybrid bíla er að þeir brúa bilið milli hefðbundins eldsneytis og rafmagns þ.e  bensínvélin tryggir að ég verð ekki strandaglópur uppi á heiði. Nokkrir tugir kílómetra á rafmagni í daglegum akstri spara bensín og minni eldsneytisnotkun þýðir ekki bara minni útgjöld heldur líka lægri útblástur, sem er gott fyrir umhverfissamviskuna. Þar að auki skilar rafmagnið mýkri akstri í innanbæjarsnattinu.

Þessi nýi Plug-in Hybrid Rafale er meira að segja fjórhjóladrifinn og sagður „sameina kraft, sparneytni og þægindi í glæsilegum bíl“! Ég varð að prófa.

Renault Rafale er 300 hestöfl með 230 nm tog getur dregið 1.500 kg.Anton Brink

Stöðugur á vegi

Rafale Hybrid E-Tech er búinn 22kWh rafhlöðu, tveimur rafmótorum og 1,2 l turbo bensínvél. Hann er 300 hestöfl með 230 nm tog getur dregið 1.500 kg. Annar rafmótorinn er staðsettur á afturöxlinum og knýr afturhjólin og t.d má segja að hann ýti bílnum út úr beygjum sem skilar betra gripi og stöðugleika á veginum.

Drægnikvíðinn úr sögunni?

Uppgefin rafdrægni Rafale E-Tech hybrid SUV á 100% hleðslu er 105 km en við okkar köldu og blautu íslensku aðstæður verður þó alltaf að klípa aðeins af uppgefinni tölu. Þegar ég tók við bílnum var rafhlaðan í 80% og reiknaði hann þá með að komast 50 km. 

50 til 80 km duga mér samt vel í daglegum akstri til og frá vinnu, út í búð og annað skutl svo þetta leit bara vel út. Heildar akstursdrægni bílsins er allt að þúsund kílómetrar, ég var góðum málum.

Ég kemst hátt í þúsund kílómetra á Renault Rafale E-Tech hybrid. Langferðir verða því leikur einn.

Hægt að hlaða í sömu innstungu og símann

Bíllinn hleður inn á rafhlöðuna þegar ég bremsa, sleppi inngjöfinni eða renn niður brekku og svo get ég bara hlaðið hann í venjulegri innstungu heima eins og símann minn. Það tæki þó hátt í átta klukkustundir að ná 100% hleðslu í venjulegri innstungu svo að öllum líkindum myndi ég fá mér heimahleðslustöð (7,4 kW) og þá tæki tæpa þrjá tíma að hlaða upp í 100%. 

EV takkinn fyrir rafmagnsham

Kerfið í bílnum velur besta orkugjafann í aksturinn eftir aðstæðum og til dæmis fer bensínvélin í gang ef ég gef í við framúrakstur eða bruna upp bratta brekku. Á frostköldum morgnum gæti bensínvélin ræst fyrst en annars startar bíllinn alltaf á rafmagninu. 

Með því að smella á EV takkann sem er að finna á milli sætanna fer bíllinn hinsvegar í rafmagnsham og nýtir þá eingöngu rafhlöðuna.  Ég myndi allan daginn gera það með hann fullhlaðinn og í innanbæjarakstri. Þegar rafmagnið klárast að lokum skiptir hann yfir í bensín og ég fer ekki á taugum.
Reykjanesið er skemmtilegur sunnudagsrúntur gegnum síbreytilegt landslag 

Eins og ballerína í beygjum 

Ég skellti ég mér í sunnudagsrúnt um Reykjanes en fyrst snérist ég aðeins í bænum. Hljóðlaust og mjúklega leið Rafale um völundarhús Þingholtanna og í hinni alræmdu Skeifu þar sem gatnakerfið samanstendur af inn- og útkeyrslum af bílastæðum og agnarsmáum hringtorgum var hann frábærlega lipur. Díseltrukkurinn á ekki roð í hann þar enda ekki búinn sama tæknitrixi og Rafale þegar kemur að beygjuradíus.

Það flottasta við þennan bíl þegar kemur að liprum akstri og frábærri upplifun við að keyra er nefnilega það að afturhjólin beygja líka í beygjum um allt að 5 gráður og ýmist á móti framhjólunum eða með þeim, eftir því á hvaða hraða bíllinn er.

Afturhjólin beygja líka í beygjum um allt að 5 gráður, ýmist á móti framhjólunum eða með.

Ný upplifun í U-beygjum

Bíllinn hagar sér eiginlega eins og hann sé minni en hann er. Á minni hraða eins og í innanbæjarakstri snúa afturhjólin á móti framhjólunum sem gerir beygjuradíusinn allt að 10% minni svo U-beygjur verða stórkostlega skemmtilegar. Á meiri hraða snúa afturhjólin hinsvegar í sömu átt og framhjólin svo beygjan verður mýkri og bíllinn stöðugri og þægilegra að sitja í honum gegnum beygjuna.

Þetta afturhjólabeygjubragð gerir Rafale til dæmis virkilega snarpan í beygjunum þegar hann er í Sportstillingu, sem þið verðið að prófa.

Auðvelt að svissa milli akstursstillinga

Það er sem sagt hægt að velja milli mismunandi akstursstillinga. Comfort er mjúk og þægileg fyrir daglegan akstur og þá vinnur rafmótorinn mest en vélin kikkar inn þegar þörf er á, í Sport vinna bæði rafmótor og vél saman fyrir mikið afl, bíllinn verður stífari í fjöðrun og aðeins stífari í stýri. Mér fannst sport stillingin mjög skemmtileg en hún sparar ekki neitt, Eco stillingin er til að spara og þá keyrir bíllinn eins mikið rafmagni og hægt er.

Í Snow stillingu virkjast fjórhjóladrifið og bíllinn hefur betra grip í hálku og snjó, fjórhjóladrifið er einnig virkt í All Terrain fyrir malarvegi. Auðvelt er að skipta á milli með einum takka ég ók mestmegnis á Comfort eða Eco en setti stundum í Sport, til að fá aðeins í magann.

Hljóðið af með einum takka

Þessi bíll er búinn akstursaðstoð, svo sem viðvörun um hámarkshraða, akreinastýringu og línuviðvörun, árekstrarvörn, fjarlægðaskynjurum og frábærri bakkmyndavél. Hægt er að stilla aðstoðina eftir eigin þörfum sem er sjálfsagt að gera til að auðvelda sér lífið.

Það er frábært hvað tæknin getur hjálpað mikið þegar kemur að öryggi en Rafale samt fær flest prik fyrir að hægt er að slökkva á viðvörunar hljóðum með einum takka vinstra megin við stýrið. Algjör snilld að þurfa ekki að fara í gegnum marga smelli á skjánum til að taka þetta út.

Ef smellt er tvisvar á takkann lengst til vinstri á myndinni hættir að heyrast viðvörunarhljóð vegna hámarkshraða. Skilaboð þess efnis sjást þó áfram á skjánum.

Straumlínulagað lúkk sem vísar í hraða 

Bíllinn er virkilega flottur, straumlínulagaður og nettur þó hann sé enginn smábíll, 4710 mm að lengd og 2085 á breidd. Veghæðin er 145 mm, sem er minna en undir díseltrukkinn sem ég er vön en líklega alveg nóg í flestar mínar ferðir. Farangursrýmið er rúmgott eða 539 lítrar.

Anton Brink

Það fór virkilega vel um mig í bílnum, með hita í stýri og sætum. Framsætið var ekki rafdrifið í útgáfunni sem ég prófaði en auðvitað hægt að panta svoleiðis. 

Innréttingin er lipurlega hönnuð og flott og hér er allt við höndina; stafrænt mælaborð og 12” stjórnskjár fyrir miðju fyrir afþreyingu og upplýsingakerfi sem styður Android Automotive / Google, þar með talið Google Maps og Google Assistant og bæði Apple CarPlay og Android Auto.

Handfangið yfir geymsluhólfinu vísar á skemmtilegan hátt í flugheiminnAnton Brink

Klár í flugtak

Glasahaldarar og geymsluhólf eru í miðjunni sem hægt er að loka og hlaða símann þar ofan á.  Handfangið á lokinu var ekkert venjulegt heldur minnti það á inngjöf í flugvél. Til að opna hólfið greip ég í handfangið og renndi því fram, eins og ég væri í flugtaki.

Það er reyndar engin tilviljun því handfangið á einmitt að vísa í flugstjórnarklefa Caudron-Renault Rafale flugvélar sem Renault framleiddi á fjórða áratugnum. Það má meira að segja tengja fleira í hönnuninni inni í bílnum við flugvél, skjáirnir snúa að bílstjóranum og ég sit eins og í flugstjórnarklefa.

 Þá eru allar línur Rafale léttar og sveigðar og LED-lýsingin inni í bílnum undirstrikar straumlínulögun. Orðið Rafale þýðir meira að segja gustur.

Bílstjórinn situr í hálfgerðum flugstjórnarklefa með öll stjórntæki í seilingarfjarlægð. Handfangið yfir geymsluhólfinu í miðjunni var virkilega skemmtilegt. Anton Brink

Anton Brink
Anton Brink

Straumlínulagað þakið hallar aftur yfir höfði aftursætisfarþeganna en þrengir síður en svo að. Bíllinn er virkilegaa rúmgóður aftur í líka svo vel fer um hávaxna í þægilegum sætum. 

Til að friða enn frekar umhverfissamviskuna er leðurlíki á sætum og hluti innréttinganna er úr endurunnum efnum.

Rúðuþurrkurnar flugu í gang 

Gírstöngin er staðsett ofarlega aftan við stýrið og stundum þegar ég var að skipta um gír kveikti ég á rúðuþurrukunum! Fljótlega var þetta þó komið í vöðvaminnið og ég rataði á réttan stað til að skipta um gír.

Gírstöngin er staðsett fyrir aftan stýrið.Anton Brink

„Brúmm“-hljóðið þegar bensínvélin kikkaði í gang fór heldur ekki fram hjá mér né titringurinn sem fór um allan bílinn. Aksturinn á rafmagninu var nefnilega svo ótrúlega ljúfur, hljóðlaus og lipur.

Stærstu kostirnir

Beygjuradíusinn er algjört tromp í þessum bíl. Hann er lipur eins og ballerína í beygjum, þrátt fyrir að vera enginn smábíll. Það var ótrúlega þægilegt að keyra hann um þröngar göturnar í Þingholtunum og smeygja sér í stæði. Algjörleg áreynslulaus akstur og með liprustu bílum sem ég hef prófað. 

Svo að geta smellt á takka og slökkt á hraðaviðvörunarhljóðinu. Ég veit auðvitað að hljóðið er þarna af ástæðu og í sjálfu sér er það frekar hógvært í þessum bíl en samt, það var ansi þægilegt að geta losnað við það svo auðveldlega.

Ég brunaði um ægifagurt Reykjanesið, þetta landslag er engu líkt og Rafale tók sig virkilega vel út í svörtu hrauninu niðri við Reykjanesvita. Krísuvíkurleiðin til baka bauð upp á mismunandi undirlag ef ég hætti mér út af veginum en Rafale rúllaði þessu öllu upp.

Þessi bíll er einfaldlega þægilegur, rúmgóður, kraftmikill, fjórhjóladrifinn kaggi sem slær á umhverfissamviskubitið og róar taugatrekkta drægnikvíðasjúklinga eins og mig.

Hljóðlaus og ljúfur rafakstur megnið af tímanum en umbreytist í geggjaðan bensíntrukk þegar það á við án þess að gefa afslátt af lipurleika og þægindum. Hann sameinar það besta úr rafbílaveröldinni og venjulegu bensínveröldinni og skilar mér þangað sem ég þarf að komast stresslaust. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×