Innlent

Annar fundur boðaður í kjara­við­ræðum flug­um­ferðar­stjóra

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Enn er ekki komin niðurstaða í kjaraviðræður Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins. Áfram verður fundað á morgun.

Fulltrúar flugumferðarstjóra og samtakanna funduðu í dag í um fimm klukkustundir og hefur ríkissáttasemjari boðað annan fund á morgun. Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í apríl.

„Það er allaveganna einhver niðurstaða og tilefni til að hittast aftur á morgun,“ segir Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, í samtali við fréttastofu.

Á þriðjudag boðuðu flugumferðarstjórar vinnustöðvun og hyggjast þeir framkvæma hana á sunnudagskvöldið 19. október. Vinnustöðvunin verður í gildi frá klukkan tíu á sunnudagskvöld til þrjú aðfaranótt mánudags og verður lofthelgi við Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll lokað á meðan.

Sjá nánar: Flugumferðarstjórar boða vinnustöðvun

Arnar segist vilja afstýra vinnustöðvuninni en málið veltur á launalið kjarasamningsins.

„Fyrst og fremst það sem er verið að ræða útfærslur á henni, það er stóra málið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×