Íslenski boltinn

Leikjahæsti Valsmaðurinn á förum frá fé­laginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Egill Lárusson fagnar einu marka sinna fyrir Val.
Sigurður Egill Lárusson fagnar einu marka sinna fyrir Val. vísir/eyþór

Sigurður Egill Lárusson er á sínu síðasta tímabili með Val en hann tilkynnti það á stuðningsmannasíðu Vals í kvöld að hann verði ekki áfram hjá Hlíðarendafélaginu.

Sigurður Egill, sem er 33 ára gamall, hefur verið þrettán ár í Val og í sumar varð hann leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild.

Sigurður biðlaði til stuðningsmanna Vals um að mæta á sunnudaginn á Hlíðarenda þegar hann spilar sinn síðasta heimaleik fyrir félagið. Valsmenn mæta þá FH.

Sigurður Egill kom til Vals frá Víkingi árið 2013 en hann ólst upp í Fossvoginum.

Sigurður sló leikjamet Hauks Páls Sigurðssonar í sumar þegar hann lék sinn 249. leik fyrir Val í úrvalsdeild. Leikurinn á sunnudaginn verður hans 260. fyrir Valsliðið.

Sigurður hefur skorað 46 mörk í þessum leikjum og hann er fimmti markahæsti leikmaður Vals í efstu deild.

Sigurður hefur ekki skorað í sumar en hann hefur gefið eina stoðsendingu. Það þýðir að hann er kominn með 43 stoðsendingar fyrir Val í úrvalsdeild sem skilar honum í þriðja sætið á þeim lista hjá Valsmönnum. Alls hefur hann því komið með beinum hætti að 89 mörkum með Val í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×