Fótbolti

„Erfitt og lær­dóms­ríkt tíma­bil að baki“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Matthías Guðmundsson á hliðarlínunni í leik hjá Val á nýloknu keppnistímabili. 
Matthías Guðmundsson á hliðarlínunni í leik hjá Val á nýloknu keppnistímabili.  Vísir/Anton Brink

Matthías Guðmundsson segir að hann og leikmenn sínir hja kvennaliði Vals í fótbolta verði að læra af keppnistímabilinu sem lauk með 1-0 tapi liðsins gegn Þrótti í lokaumferð deildarinnar í dag. 

„Mér fannst þessi leikur aldrei ná neinu flugi og við náðum kannski aldrei að taka af handbremsuna. Ég var að vona að leikmenn myndu sleppa af sér beislinu í þessum leik en það varð því miður ekki raunin,“ sagði Matthías Guðmundsson, þjálfari Vals, um leik liðanna.

„Við fengum svo sem fín færi til þess að skora og fá eitthvað út úr þessum leik en það tókst ekki. Stigasöfnunin hefur ekki verið nógu góð í úrslitakeppninni en frammistaðan svo sem heilt yfir bara fín,“ sagði Matthías þar að auki. 

„Tímabilið í heild sinni var erfitt og lærdómsríkt hjá okkur. Þetta var mikill rússibani og mér fannst lágpunkturinn vera tapið á móti Fram fyrr í sumar. Ég kann svo sem enga skýringu á því af hverju þetta gekk ekki betur en raun bar vitni en nú er bara að hlaða batterýin og núllstilla okkur fyrir næsta tímabil,“ sagði hann. 

Valur hafnaði í fimmta sæti deildarinnar með 29 stig sem eru vonbrigði hjá Valsliðinu sem ætlaði sér stærri hluti.

„Það verða einhverjar breytingar á leikmannahópnum bara svona eins og gengur og gerist. Markmiðið er að halda áfram að uppbyggingu á uppöldum leikmönnum hjá Val en um leið að bæta við okkur leikmönnum inn í metnaðarfullt umhverfi þar sem stefnan er að vera með lið í fremstu röð,“ sagði þjálfari Valsliðsins sem mun halda áfram að stýra liðinu á næstu leiktíð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×