Viðskipti innlent

Fyrr­verandi starfs­menn endur­vekja Lagningu

Árni Sæberg skrifar
Lagning starfaði í nokkur ár við Keflavíkurflugvöll.
Lagning starfaði í nokkur ár við Keflavíkurflugvöll. Vísir/Vilhelm

Hópur fyrrverandi starfsmanna Lagningar, bílastæðafyrirtækis á Keflavíkurflugvelli, hefur endurvakið félagið, sem fór í gjaldþrot í september.

Lagning, sem hafði lagt bílum ferðalanga á leið úr landi á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár, var tekið til gjaldþrotaskipta í september.

Nú hefur þeim sem stundað höfðu viðskipti við fyrirtækið borist tölvubréf frá því.

„Við vildum tilkynna þér að nýjir eigendur hafa nú tekið við vörumerki Lagningar. Við erum hópur fyrrum starfsmanna Lagningar og þekkjum því reksturinn vel og vitum nákvæmlega hvernig við getum gert betur,“ segir í tölvubréfinu.

Þá segir að markmið nýrra eigenda sé að bera þjónustustig Lagningar á nýjar hæðir. En til þess muni þeir ekki taka við jafnmörgum bílum og áður fyrr. 

Fyrirtækið var stofnað árið 2021 af Theódóri Ágústi Magnússyni, Jóhanni Eggertssyni, Írisi Hrund Sigurðardóttur og Sigurði Smára Gylfasyni. Þjónusta Lagningar fól í sér að viðskiptavinir á leið úr landi afhentu starfsmanni Lagningar bíl sinn við Keflavíkurflugvöll. Starfsmaður ók bílnum á bílastæði í Reykjanesbæ og færði svo á bílastæði við flugstöðina við heimkomu.

Þá bauð Lagning upp á aukaþjónustu fyrir þá sem vildu svo sem þrif og bón á bílum.

Fyrirtækið velti 148 milljónum króna árið 2022 og hagnaðist um 12 milljónir króna. Árið eftir varð hins vegar 7,7 milljóna króna tap á rekstrinum og eigið féð 14,1 milljónir króna í árslok 2023. Ekki hefur verið birtur ársreikningur fyrir árið 2024.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×