Lífið samstarf

Eru geim­verur meðal okkar?

Sögur útgáfa
Gunnar Dan sendi nýlega frá sér bókina UFO 101 sem í dag situr í fyrsta sæti á metsölulista Eymundsson yfir handbækur, fræðibækur og ævisögur. Þar er m.a. fjallað um óþekkt fljúgandi fyrirbæri, verur sem ekki eru jarðneskar, meint samsæri djúpríkisins og frásagnir Íslendinga sem segja frá reynslu sinni af óþekktum fljúgandi furðuhlutum.
Gunnar Dan sendi nýlega frá sér bókina UFO 101 sem í dag situr í fyrsta sæti á metsölulista Eymundsson yfir handbækur, fræðibækur og ævisögur. Þar er m.a. fjallað um óþekkt fljúgandi fyrirbæri, verur sem ekki eru jarðneskar, meint samsæri djúpríkisins og frásagnir Íslendinga sem segja frá reynslu sinni af óþekktum fljúgandi furðuhlutum.

Það eru til bækur sem svara spurningum. Og svo eru til bækur sem kveikja nýjar spurningar. Ein þeirra sem fer hiklaust í seinni flokkinn er bókin UFO 101 eftir Gunnar Dan sem kom út fyrir skemmstu hjá Sögum útgáfu.

Það myndast yfirleitt ákveðin orka í loftinu þegar minnst er á UFO eða óþekkta fljúgandi furðuhluti. Fólk brosir gjarnan vandræðalega eða yfirlætislega yfir slíkum vangaveltum. En hvað ef brosið er aðeins sjálfsvörn? Hvað ef innra með okkur öllum kraumar gamall neisti: „Hvað ef…?“

Bók Gunnars hefur vakið mikla athygli undanfarna daga enda smellpassar umfjöllunarefni hennar beint inn í „hvað ef“ flokkinn. Hún er lifandi, persónuleg, full af frásögnum, tilvísunum, spurningum og óvæntum hugleiðingum um allt frá djúpríki til galaktískra bandalaga. Þetta er bók sem er kannski ekki í því hlutverki að sannfæra lesendur, heldur kveikja spurningar hjá þeim. Og hún gerir það svo sannarlega enda er hún í dag í fyrsta sæti á metsölulista Eymundsson yfir handbækur, fræðibækur og ævisögur.

Jake Barber er uppljóstrari sem kom fram fyrr á þessu ári. Hér er hann fyrir framan UFO egg sem hann tók þátt í að sækja á ótilgreint tilraunasvæði.

Byrjaði allt í Þvottahúsinu

Hugmyndina að bókinni má rekja til hlaðvarpsins Þvottahúsið sem bræðurnir Gunnar Dan og Davíð Karl hafa haldið úti í fimm ár. Félagi þeirra, Arnór Jónsson, stökk inn í hópinn síðasta vetur og saman gerðu Gunnar og hann þrjá þætti um óþekkta fljúgandi furðuhluti.

Ég vona að fleiri þori að segja frá reynslu sinni svo hægt sé að halda áfram að skrá og skoða þetta efni.

„Þessir þættir fengu svakalega góð viðbrögð og við ræddum okkar á milli að skrásetja betur þessa sögu. Arnór fluttist svo til útlanda þannig að ég sat einn eftir með þetta efni. Í vor á þessu ári gekk ég svo í gegnum 2-3 mánaða andlegt ferli og fór að upplifa sterkar sálrænar breytingar í tengslum við kosmískar breytingar sem eru að eiga sér stað, trúarsannfæringu, samvinnuverkefni Galactic Federation og fleiri þætti. Í kjölfarið ákvað ég að ráðast í þetta verkefni einn og kláraði að skrifa bókina á sjö vikum, samhliða fullu starfi sem verslunarstjóri Handverkshússins og þriggja vikna sumarfríi með fjölskyldunni.“

Ljósmynd af radar, Gimbal myndbandinu fræga sem kom fram í vitnaleiðslunum árið 2023.

Engin venjuleg bók

Og þetta er engin venjuleg bók hjá Gunnari. Meðal umfjöllunarefna hennar má nefna óþekkt fljúgandi fyrirbæri víða um heim, verur sem ekki eru jarðneskar, uppljóstrara, meint samsæri djúpríkisins, hugvíkkun og Galactic Federation of Light. Íslendingar segja frá reynslu sinni af óþekktum fljúgandi furðuhlutum og við kynnumst skyldum sögum víðsvegar frá í heiminum. Því ólíkt því sem Hollywood myndir segja okkur má finna slíka frásagnir frá öllum heimshornum.

Bókin segir einnig frá brottnámstilfellum sem innihalda m.a. frásagnir af Travis Walton og Pascagula-tilfellinu. Og ekki má gleyma nýjustu bombunum sem eru vitnaleiðslur í bandaríska þinginu 2023, 2024 og 2025 sem marka upphaf vissrar byltingar í þessum málaflokki eins og Gunnar orðar það.

Jessey Marcell, í tengslum við Rosewell atvikið, hér stillt upp fyrir framan falskar leyfar af veðurathugunarbelg.

En hefur þú sjálfur séð óþekkta fljúgandi furðuhluti?

„Já, og það gerðist eiginlega allt í einu. Ég hafði eytt níu árum í rannsóknir, lestur bóka og ýmissa frásagna en ekki séð neitt sjálfur. En núna um síðustu mánaðamót, í kringum hrekkjavökuna, sá ég fjögur tilvik á einni viku.“

Hann lýsir fjórða skiptinu þannig: „Ég var að horfa á norðurljósin úti í garði heima hjá mér. Þá sé ég yfir húsi nágrannans hvítan eins metra hvítan hlut, svona iðandi eins og stór teiknimyndasáðfruma. Ég fylgi honum í tvær sekúndur og svo hverfur hann. Eins og hann væri að veifa mér. Ég er efins að eðlisfari og leita jarðbundinna skýringa. En stundum passa þær einfaldlega ekki.“

Gunnar Dan mætti í Reykjavík síðdegis fyrr í vikunni og sagði hlustendum frá bók sinni UFO 101.

Sögur sem fólk þorir loksins að segja

Gunnar hefur fengið sendar tugir frásagna frá Íslendingum sem segjast hafa séð eitthvað sem erfitt er að útskýra. Sumir þeirra hafa haldið sögunum leyndum í áratugi.

Hvað stendur upp úr af þessum frásögnum?

„Það er saga um mann á Suðurlandi frá árunum kringum 1960. Hann og faðir hans voru að grafa skurð og finna stóran egglaga hlut í jörðinni. Þeir tilkynntu yfirvöldum um fundinn en tveimur dögum síðar var bandaríski herinn af Keflavíkurflugvelli mættur sem gróf hann upp og fjarlægði. Þegar ég reyndi að fá meiri upplýsingar upp úr honum neitaði maðurinn að tala meira. Hann sagði aðeins: „Ég óttast um öryggi mitt og fjölskyldunnar.“

Við heyrum reglulega slíkar sögur erlendis frá en í mun minna mæli frá Íslendingum. Hugsanlega verður breyting á því með útgáfu bókarinnar UFO 101.

Kjarnorka, kosmísk áhrif og stórar spurningar

Einn af mörgum áhugaverðum hlutum bókarinnar tengist kjarnorkuvopnum. Gunnar bendir á að frásagnir af óþekktum fljúgandi furðuhlutum hafi margfaldast á sama tíma og fyrstu kjarnorkusprengjurnar voru sprengdar. „Því sprenging kjarnorkusprengja hefur ekki bara áhrif á jörðina heldur alheiminn.“

Til er fjölda frásagna frá Bandaríkjunum og Rússlandi þar sem óþekkt flygildi birtust yfir kjarnorkuverum og herstöðvum, sérstaklega þar sem kjarnorkuvopn voru geymd. Þar segir m.a. að þessi flygildi hefðu tekið yfir stjórntæki og gerðu um leið vopnin óvirk um tíma. Svo hurfum þau bara. Það var eins og einhver væri að segja: „Við sjáum ykkur. Við samþykkjum þetta ekki alveg.“

En hvert er markmið bókarinnar? Viltu sannfæra okkur um tilvist geimvera og fljúgandi furðuhluta?

„Nei, ég lít ekki á mig sem einhvern boðbera eins sannleika,“ segir hann. „Það eina sem ég gerði var að skrifa bókina sem mig sjálfum langaði að lesa, bókina sem mér var falið að skrifa. Það eina sem ég gerði var að koma mér undan arkitektahönnuðum netmöskvanum. Ég er bara á flótta undan efnishyggju og þeim ágreiningi og sundrung innan samfélagsins sem djúpríkið hefur arkitektahannað í þeim tilgangi að viðhalda meðvitundarleysi og blindni.“

Hann sagði aðeins: „Ég óttast um öryggi mitt og fjölskyldunnar.“

En auðvitað vonast hann til þess að bókin veki fólk til umhugsunar. „Ég vona að fleiri þori að segja frá reynslu sinni svo hægt sé að halda áfram að skrá og skoða þetta efni. Hvort sem það endar með því að við sönnum eitthvað „yfirnáttúrulegt“ eða komumst bara að því að mannleg skynjun er flóknari en við héldum.“

Og svo er þetta líka spurning um ábyrgð að hans mati. „Við erum öll með alls konar hlutverk, t.d. að sjá fyrir fjölskyldunni og að þrífast í samfélaginu. En við erum líka með siðferðislega ábyrgð gagnvart heildinni og ég lít á útgáfu bókarinnar sem minn litla þátt í þeirri ábyrgð.“

Og það tekst Gunnari vel. UFO 101 er bók sem gefur lesandanum rými til að velta fyrir sér hvort sá litli titringur í maganum þegar minnst er á geimverur sé barnalegur draumur eða innbyggð tilfinning fyrir einhverju sem við kunnum að hafa gleymt.

„Það sem þessi málaflokkur gerir fyrir mig er hreint út sagt með ólíkindum. Ég finn mig dregin í áttina að öflugri samvitund og auðmýkt. Það að finna sig minnka gagnvart kosmískum töfrum og leyndardómum er eitthvað sem sérhver mannskepna hefur gott að því að upplifa. Almennt séð erum við of stór, við upplifum okkur of stór og við teljum okkur vera með stærra og meira vitsmunalegt bolmagn en við raunverulega búum yfir. Við erum hrokafull, fordómafull og teljum söguna þegar skrifaða. Við teljum þekkt vísindi þegar geta svarað öllum spurningum.“

Og kannski er það stærsta afrek bókarinnar: hún fær okkur til að líta upp í stjörnubjartan himininn og hugsa bara í sekúndubrot: „Hvað ef?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.