Innlent

And­staða al­mennings hvati til að búa vel um hnútana

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hanna Katrín Friðriksson er atvinnuvegaráðherra. Hún segir einhug um málið í ríkisstjórn.
Hanna Katrín Friðriksson er atvinnuvegaráðherra. Hún segir einhug um málið í ríkisstjórn. Vísir/Ívar Fannar

Atvinnuvegaráðherra hefur beint því til Hafrannsóknastofnunar að framkvæma burðarþolsmat og koma með tillögur að eldissvæðum vegna laxeldis í Mjóafirði svo hægt verði að bjóða út leyfi næsta vor. Hún boðar frumvarp á nýju ári og segist ekki vera í andstöðu við kjósendur Viðreisnar í málinu.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hélt erindi á Sjávarútvegsdeginum í gær og kallaði eftir að Hafrannsóknastofnun geri burðarþolsmat í Mjóafirði sem og tillögur að eldissvæðum vegna mögulegs laxeldis í firðinum. 

Til stóð að bjóða út leyfi vegna sjókvíaeldis í firðinum árið 2023 en þau áform voru þá sett á ís. Bæjarráð Fjarðabyggðar skoraði á ráðherra í sumar að hefja undirbúning að útgáfu leyfa.

Boðar frumvarp um lagareldi

Í máli ráðherra kom fram að gert sé ráð fyrir að ráðgjöf Hafró verði tilbúin snemma á vormánuðum og þá verði ekkert því til fyrirstöðu að farið verði í útboð á svæðunum.

„Ef við tölum um vorið þá tengist þetta því að núna í upphafi næsta árs mun ég leggja fram frumvarp til laga um lagareldi þar sem markmiðið er að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar í eldinu þannig að við bæði eflum verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu en gerum það út frá sjónarmiði náttúruverndar og umhverfsiverndar,“ sagði Hanna Katrín í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hún segir málið mikilvægt og að ótvíræður stuðningur sé við það í ríkisstjórn.

„Þetta styrkir verðmætasköpun og byggð um allt land. Það er stóra málið í þessu. Við sjáum bara fréttir undanfarið hversu mikilvægt það er að byggja fjölbreyttari stoðir í atvinnulífnu víðsvegar um allt land. Við þekkjum það hversu vont það er þegar fyrirtæki sem eru mjög stór á ákveðnum landssvæðum lenda í áföllum eða breyta til hvaða það hefur mikil og neikvæð áhrif á viðkomandi samfélag.“

Segir andstöðu kjósenda hvata til að búa vel um hnútana

Í skoðanakönnun sem gerð var í sumar kom fram mikil andstaða almennings við laxeldi í opnum sjókvíum. Þar af voru um 70% kjósenda Viðreisnar andsnúnir sjókvíaeldi en Hanna Katrín er ráðherra flokksins.

„Ég veit að það hafa komið upp óhöpp og slys sem hafa ýtt undir neikvæða ímynd margra sérstaklega á hinum þéttbýlari svæðum sem þekkja kannski ekki á eigin skinni gríðarlega jákvæð áhrif þessarar atvinnustarfsemi. Þetta er akkúrat hvatinn til að búa svo um hnútana að lagaramminn sem við erum að vinna að taki þessi mál sterkari tökum.“

„Ég tel mig ekki vera í andstöðu við þá sem vilja að þessi starfsemi sé í takt við ströngustu umvherfiskröfur og dýravernd heldur frekar að við hlustuðum og unnum málið þannig og það verður lagt fram á þeim nótum.“

„Mikið tillit tekið til þeirra sjónarmiða“

Í kjölfar orða ráðherra í gær stigu forsvarsmenn náttúruverndarsinna fram og gagnrýndu áform um laxeldi í Mjóafirði. Katrín Oddsdóttir lögmaður segir meðal annars á Facebooksíðu sinni að arfleið Hönnu Katrínar í atvinnuvegaráðuneytinu sé að hafa stungið hausnum í sandinn. 

„Ég skil mjög vel og ég ber mjög mikla virðingu fyrir starfsemi þessara náttúruverndarsamtaka og það er alveg ljóst að þeirra sjónarmið og þeirra barátta hefur skilað því að í þeim lögum sem við erum að smíða er tekið mikið tillit til þeirra sjónarmiða.“

Hún segist telja að sjónarmið beggja aðila muni nást í áðurnefndu frumvarpi sem væntanlegt er á nýju ári.

„Markmiðið er auðvitað í þessari atvinnugrein eins og í öðrum okkar stóru atvinnugreinum, sem byggja mikið til á náttúruauðlindum landsins, að við setjum saman annars vegar þessa mikilvægu atvinnusköpun þar sem við erum að leggja áherslu á byggðafestu í landinu og síðan tryggja sjálfbærni og náttúruvernd. Ég tel að því markmiði sé náð í þeim lögum sem við erum að smíða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×