Lífið

„Það eru for­réttindi að eiga systur með Downs“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Dagný og Bylgja eru báðar á fullu í fimleikum og njóta þess í botn.
Dagný og Bylgja eru báðar á fullu í fimleikum og njóta þess í botn. Aðsend

Í Kópavoginum búa tvær systur, þær Dagný Björt og Bylgja Björt. Þær hafa slegið í gegn á TikTok að undanförnu í myndskeiðum þar sem þær bregða á leik og grínast og gantast saman. En það sem sker þær systur úr fjölda þeirra sem birta efni inni á miðlinum er að Bylgja er með Downs-heilkenni.

Fimleikadrottningar úr Kópavoginum

Dagný og Bylgja búa ásamt foreldrum sínum og systrum sínum tveimur í Salahverfinu. Dagný er 19 ára og er að læra íþróttafræði í HR en Bylgja er 13 ára og er í 7. bekk í Salaskóla í Kópavogi. Báðar eru þær gallharðar fimleikakonur en Dagný er líka þjálfari hjá Gerplu.

„Ég er sem sagt líka að þjálfa hana Bylgju og okkur finnst alveg rosalega gaman að fara í salinn og hoppa og leika okkur og gera meira en bara þrek og æfingar. Bylgja var bara tveggja eða þriggja ára þegar hún byrjaði í krílafimleikunum. Hún á sko ekki erfitt með að fara í handstöðu og gera handahlaup,“ segir Dagný.

@dagnyaxels Bylgja bakar 🤤🍰🧁 njótið☺️ #lakrístoppar #bake ♬ original sound - Dagný björt

Hvað er skemmtilegast í fimleikunum Bylgja?

„Allt!“ svarar Bylgja.

„Okkur finnst líka gaman að fara í sund og gera alls konar stelpudót saman. Svo erum við að fara á tónleika með IceGuys núna á laugardaginn, er það ekki?“ segir Dagný og lítur á systur sína, sem getur ekki beðið eftir laugardeginum.

Það vill líka svo til að hann Viktor Skúli, sem er einn af bestu vinum hennar Bylgju, er einn af meðlimum dyggustu stuðningasveitar IceGuys hér á landi.

Baby Born er draumagjöfin

Það þarf ekki að eyða löngum tíma með þeim stöllum til að sjá að þær eiga einstaklega gott og náið systrasamband sín á milli.

En eruð þið alltaf svona góðar vinkonur?

Bylgja svarar strax játandi en Dagný tekur nú ekki alveg svo auðveldlega undir það.

„Svona yfirleitt, en við erum nú alveg stundum að rífast og tuða og erum svolítið pirraðar hvor á annarri. Svona smá,“ segir hún og lítur kankvís á systur sína.

„Ég elska auðvitað allar systur mínar út af lífinu en við Bylgja eigum alveg svona „extra“ náið samband. Bylgja á svona sérstakan stað í hjartanu í mér. Það sem ég elska við Bylgju er hún er alltaf svo einlæg og heiðarleg. Hún segir hlutina bara nákvæmlega eins og þeir eru, allar tilfinningarnar hennar eru svo sannar, og það er svo fallegt.“

@dagnyaxels GRWBylgju fyrir Downs jólaballið ❤️ #fyp #grwm #downsyndrome ♬ original sound - Dagný björt

Núna styttist í jólin og systurnar eru að vonum spenntar.

Hvað langar þig að fá í jólagjöf Bylgja?

„Baby Born!“ svarar Brynja um hæl.

„Það er alltaf efst á listanum,“ segir Dagný brosandi.

Svo koma áramótin.

Hvað finnst þér skemmtilegast við áramótin Bylgja?

„Sprengja. Og borða góðan mat,“ segir Bylgja.

„Úff, ég er sko mjög hrædd við flugelda,“ segir Dagný.

„Ekki ég! Og ekki dúkkan heldur!“ tekur Bylgja skýrt fram.

Frábærar undirtektir

Það er ekki langt síðan Dagný byrjaði að birta myndskeið af sér og Bylgju á TikTok, rétt tæplega mánuður, en viðbrögðin hafa svo sannarlega ekki látið á sér standa. Þær eru meira að segja þegar búnar að fá gjafir frá nokkrum fyrirtækjum.

„Það er bara ótrúlega gaman, Nói Siríus gaf okkur fullt af nammi til að nota í baksturinn hjá okkur, og svo gaf Elko okkur Nutri bullet blandara og skartgripabúðin Mjöll gaf okkur hálsmen!“

Seinasta vor tók Dagný þátt í keppninni um Ungfrú Ísland og þá nýtti hún tækifærið til að vekja athygli á málefnum fatlaðra hér á landi. Hún brennur fyrir því málefni, og af góðri ástæðu.

Það er aldrei langt í gleðina og sprellið hjá systrunum.Aðsend

„Ég hef ekki séð marga einstaklinga með Downs á samfélagsmiðlum, allavega hérna á Íslandi. Og mér finnst svo mikilvægt að fólk geti séð fjölbreytileikann þar inni. Þess vegna þykir mér ofboðslega vænt um að hafa fengið þessi góðu viðbrögð.”

Dagný segir það vera ákveðin forréttindi að hafa fengið að alast upp með Bylgju. Það sé líka ástæðan fyrir því að hún brenni fyrir málefnum fatlaðra. Hún hefur starfað sem liðveisla og telur víst að hún hefði aldrei sótt í það starf ef ekki hefði verið fyrir Bylgju.

„Það hefur mótað mig, það er engin spurning. Þegar þú elst upp með systkini sem er með Downs, þegar það er hluti af lífinu þínu, þá horfiru miklu meira út fyrir rammann.

Það eru margir þarna úti sem eru kanski feimnir þegar kemur að því að umgangast fatlað fólk, hvort sem það eru einstaklingar með Downs eða aðrar greiningar, og ég skil það mjög vel. En þegar þú elst upp í þessu umhverfi þá verður þetta bara partur af þér.

 Núna er ég byrjuð í íþróttafræðinni og í framtíðinni er ég að stefna á að verða oseópati og sérhæfa mig í fötlunarsjúkdómum. Ég hefði örugglega aldrei valið þá leið ef ég ætti ekki systur eins og Bylgju.”

@dagnyaxels Drafts eru best 😆😆 #fyp #draft #downsyndrome ♬ Till i cant stand - Ashy!!:D

Systurnar hafa sýnt frá því í myndskeiðunum sínum þegar þær eru að baka saman. Það er eitthvað sem þeim finnst mjög skemmtilegt. Í einu myndskeiðinu bjuggu þær til lakkrístoppa en það sem kom út úr ofninum var að vísu ekki alveg það sem þær höfðu lagt upp með. „Það var smá klúður, þannig að við ætlum að gera aðra tilraun fyrir jólin,“ segir Dagný. „Já, og gera líka TikTok!“ bætir Bylgja við.

Þegar Bylgja er spurð hvað hún ætli að vera þegar hún er orðin stór stendur ekki á svarinu: Klippikona.

„Bylgja elskar nefnilega að gera alls konar hárgreiðslur, hún á svona dúkkuhaus sem er hægt að greiða og er alltaf að leika sér með hann. En svo höfum nú líka talað um það, þig langar að vinna á leikskóla, er það ekki?“ spyr Dagný. „Og vinna í ísbúð!“ segir Bylgja. Þá á eftir að nefna eitt aðalmarkmiðið sem Bylgja stefnir að.

„Að fá bílpróf!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.