Innlent

Bæjar­skrif­stofur fluttar: „Þetta hús­næði er barn síns tíma“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Húsnæðið hefur verið nýtt undir bæjarskrifstofurnar síðan 1986. 
Húsnæðið hefur verið nýtt undir bæjarskrifstofurnar síðan 1986.  Vísir/Arnar

Bæjarskrifstofur Seltjarnarnesbæjar hafa verið fluttar um set í húsnæði Fangelsismálastofnunar eftir að mygla fannst í húsnæðinu í sumar. Bæjarstjóri er ánægður með nýtt húsnæði og sér ný tækifæri í því gamla. 

Húsnæði bæjarskrifstofa Seltjarnarnesbæjar við Austurströnd 2 er auglýst til sölu á fasteignavef Vísis. Auglýst er eftir tilboðum í eignina, sem telur 658 fermetra.

Starfsmenn fundu fyrir myglu

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, segir í samtali við fréttastofu að bæjarskrifstofurnar hafi þegar verið fluttar um nokkur húsnúmer, að Austurströnd 5. Þar var Fangelsismálastofnun áður til húsa en stendur nú í flutningum á nýjan stað. Bæjarstjórn á þó enn eftir að fá hluta húsnæðisins afhentan.

„Við sitjum þarna öxl í öxl. En þröngt mega sáttir sitja,“ segir Þór. Nýja húsnæðið henti starfsemi bæjarskrifstofanna fullkomlega. 

Greint var frá því í júlí að mygla hefði fundist á bæjarskrifstofunum og ljóst væri að flytja þyrfti hluta starfseminnar. Þór segir þau tíðindi hafa staðfest langvarandi grun um skemmdir á húsnæðinu, enda sé húsnæðið orðið barn síns tíma. Fyrr í ár sagði hann tvo eða þrjá hafa fundið fyrir einkennum sökum myglunnar. 

Sjá einnig: Mygla fannst á bæjar­skrif­stofunum

Þór segir að ráðist verði í framkvæmdir á skemmdunum áður en húsnæðið verður sett í söluferli. Húsnæðið bjóði upp á tækifæri til að breyta því í íbúðarhúsnæði og þegar hafi nokkrir sýnt því áhuga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×