Lífið

Leitin á Svínafellsjökli sem hefur enn ekki skilað árangri

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Björgunarsveitarmenn skoðuðu bæði jökulinn sjálfan og nærliggjandi fjalllendi á fimm daga tímabili í ágústmánuði árið 2007.
Björgunarsveitarmenn skoðuðu bæði jökulinn sjálfan og nærliggjandi fjalllendi á fimm daga tímabili í ágústmánuði árið 2007. Vísir/Vilhelm

Mikill harmleikur átti sér stað í ágústmánuði árið 2007 þegar tveir þýskir ferðamenn týndust á Svínafellsjökli. Í fimm daga stóðu yfir umfangsmiklar aðgerðir þar sem á þriðja hundrað björgunarsveitarmanna leituðu mannanna, en án árangurs. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, fylgdi björgunarsveitarmönnunum eftir á fjórða og fimmta degi leitarinnar, í stórbrotnu umhverfi Svínafellsjökuls.

Þann 18. ágúst 2007 lýsti lögreglan eftir þeim Matthias Hinz og Thomas Grundt, tveimur þýskum ferðamönnum sem ekki hafði spurst til í þrjár vikur. Mennirnir tveir höfðu komið til Íslands í sumarfrí þar sem þeir ætluðu meðal annars að fara í fjallgöngur og ísklifur í Skaftafelli og á Vatnajökli. Síðast hafði verið séð til þeirra þann 29. júlí þegar þeir dvöldu á tjaldsvæði í Reykjavík.

Næsta sólarhring bárust lögreglu þó nokkur fjöldi ábendinga. Varðstjóri hjá lögreglunni sagði þó í samtali við Vísi þann 19. ágúst að málið væri snúið þar sem ekki væri ljóst hvar á landinu mennirnir ætluðu sér að dveljast. Þennan sama dag flaug þyrla Landhelgisgæslunnar umhverfis Vatnajökul og þræddi auk þess algengar gönguleiðir, en án árangurs.

Við rætur Svínafellsjökuls að morgni 24. ágúst. Þorkell Þorkelsson og Víðir Reynisson leggja línurnar og fara yfir skipulag leitarinnar. „Hérna byrjaði þetta af krafti, en það var takmarkað af mannskap sem fór upp á jökulinn. Þeir sem fóru þangað upp voru allir vanir fjallamenn. Það var mikið action þarna í gangi,“ rifjar Vilhelm upp.Vísir/Vilhelm

Tveimur dögum síðar, þann 21. ágúst, hófst síðan formleg leit en að henni stóðu Landsbjargarmenn ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. Í byrjun miðaðist leitin að mestu við Skaftafell og nágrenni. Björgunarsveitir í Austur-Skaftafellssýslu komu sér upp stjórnstöð í Skaftafelli en vitað var að ferðamennirnir höfðu tekið á móti SMS-skilaboðum í síma sinn á þeim slóðum þann 30. júlí. Einnig var vitað að mennirnir keyptu sérkort af Skaftafelli í verslun í Þýskalandi rétt fyrir för sína hingað til lands. Byrjað var að skipuleggja leitarflug þar sem kanna átti algengar gönguleiðir á svæðinu, klifurleiðir sem og staði þar sem hættulegt er að ferðast um.

Björgunarsveitarmenn undirbúa leitina jöklinum og gera sig klára til að fara uppeftir.Vísir/Vilhelm

Þann 23. ágúst var síðan ákveðinn vendipunktur í leitinni þegar þyrla frá Landhelgisgæslunni fann tjöld ofarlega í Svínafellsjökli sem reyndust tilheyra mönnunum tveimur. Þessi árangur náðist fljótlega eftir að þoku létti af svæðinu en þyrla var að flytja björgunarmenn á Hvannadalshnjúk. Í kjölfarið var öll áhersla lögð á að leita út frá tjöldunum, bæði úr lofti og á landi. Svæðið reyndist hins vegar mjög erfitt yfirferðar þannig að ákveðið var að senda einungis reyndustu björgunarmenn inn á svæðið og ákveðið var að björgunarsveitarmenn myndu ganga árbakka jökulánna neðan Svínafellsjökuls.

Þann 24. ágúst var leitinni haldið áfram af fullum þunga en aðstæður urðu sífellt erfiðari. Leitarsvæðið var þá orðið mjög afmarkað.

Vilhelm var staddur á svæðinu þessa tvo daga, 24 og 25. ágúst og myndaði störf björgunarsveitarmannanna.

„Þarna eru bæði ferðamenn og björgunarsveitarmenn; ferðamenn í jöklagöngu og björgunarsveitarmenn að leita.“Vísir/Vilhelm
Megináhersla var lögð á Svínafellsjökul og fjalllendi í kring, sérstaklega svæði upp að Hrútsfjallstindum og í átt að Hvannadalshnjúki. Vísir/Vilhelm
Þann 25.ágúst fóru björgunarsveitir aftur yfir þau svæði sem þóttu líklegust miðað við staðsetningu tjaldsins  og aðstæður á jöklinum.Vísir/Vilhelm
Leitað var sérstaklega að slóðum sem gætu bent til þess að ferðamennirnir hefðu farið í átt að Hrútsfjallstindum, en slóðirnar hverfa á nokkrum stöðum og leitarmenn reyndu að rekja þær og fylgja þeim eins langt og mögulegt var.Vísir/Vilhelm
Einn björgunarsveitarmanna slasaðist í leitinni, sem undirstrikar hversu erfið leitarskilyrðin voru. „Hann hafði dottið og meitt sig á fæti. Þyrlan kom og sótti hann.“Vísir/Vilhelm
„Það var ákveðinn vendipunktur þegar tjöldin fundust; eftir það breyttist fókusinn í leitinni, það var lögð meiri áhersla á efri partinn á jöklinum og fjöllin þar í kring,“ rifjar Vilhelm upp.Vísir/Vilhelm
Eftir að tjöld mannanna fundust var afráðið að flytja vélsleða upp að svæðinu.Vísir/Vilhelm
Þessa mynd tók Vilhelm um borð í þyrlu björgunarsveitarinnar.Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitarmenn koma upp á jökulinn.Vísir/Vilhelm
„Þarna eru þeir byrjaðir að leita að sporum og öðrum vísbendingum. Hrútfjallstindar eru þarna í baksýn.“Vísir/Vilhelm
Hvannadalshnjúkar. Tveir leiðsögumenn Íslenskra fjallaleiðsögumanna komu auga á klifurlínu er þeir klifu nýja leið upp vestur hlíð Hvannadalshnjúks í september árið 2010. Auglýst var eftir hvort fjallamenn hefðu farið um hlíðina en enginn gaf sig fram. Undir brattasta hluta leiðarinnar komu mennirnir auga á klifurlínu í næsta gilskorningi við þann sem þeir klifu. Línan var skorðuð í sprungu á milli steina og lágu endarnir niður í snjóinn í bröttu gilinu. Línan gæti passað við forsendur leitarinnar. Reynt var að kanna svæðið úr lofti án árangurs. Svæðið er erfitt yfirferðar og fannst línan í um 1.700 metra hæð á Svínafellsjökli.Vísir/Vilhelm

Undir lok dags, 25.ágúst, lá ljóst fyrir að öll raunhæf leitarsvæði höfðu verið könnuð. Yfirvöld og björgunarsveitir fóru að undirbúa þá erfiðu ákvörðun að draga leitina saman. Mat sérfræðinga var að lífslíkur mannanna tveggja væru orðnar nánast engar, með hliðsjón af veðri, aðstæðum og þeim tíma sem liðinn var frá því síðast spurðist til þeirra. 

Daginn eftir, 26. ágúst, var leitinni síðan formlega hætt og ferðamennirnir taldir látnir.

Þetta var dapur endir á leit sem vakti athygli bæði hérlendis og erlendis, og varpaði ljósi á þær hættur sem fylgja ferðum á jöklum fyrir óreynda göngumenn.


Tengdar fréttir

Eldsvoðinn í Reykjavík sem líkt var við náttúruhamfarir

Seint í nóvember árið 2004 átti sér stað einhver mesti bruni sem orðið hafði á höfuðborgarsvæðinu í áratugi. Þá kviknaði í gríðarlegum dekkja- og spilliefnahaug á athafnasvæði förgunarfyrirtækisins Hringrásar við Sundahöfn. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á svæðinu þessa nótt og festi á filmu baráttu slökkviliðsmannanna við eldinn.

Skelfing greip um sig þegar björgunarbátnum hvolfdi

Aðfaranótt 19. desember 2006 strandaði flutningaskipið Wilson Muuga við Hvalsnes sunnan við Sandgerði. Skipið, sem var alls 5700 lestir, var að koma frá Grundartanga á leið til Murmansk eftir að hafa losað kvarts.

Hvorki síldarævintýri né gervigreind

Það mætti halda að myndin hér að ofan væri unnin af gervigreind en ekki tekin af ljósmyndara Fréttablaðsins og Vísis snemma árs 2013. Þá varð sá fordæmalausi atburður að ríflega 35 þúsund tonn af síld drápust í Kolgrafafirði. Ástæðan var súrefnisþurrð. Fullur fjörður af síld en alls enginn ævintýrabragur.

Þegar Dorrit var forsetafrú

Þegar Dorrit Moussaieff varð forsetafrú Íslands árið 2003 markaði hún upphafið að einni litríkustu forsetafrúartíð sem landið hefur séð. Dorrit, sem var fædd í Ísrael og uppalin í London, kom inn á Bessastaði með alþjóðlegan blæ og ólíkari orku en Íslendingar höfðu áður vanist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.