Innlent

Hrindir af stað söfnun fyrir móður stúlkunnar sem lést í Suður-Afríku

Agnar Már Másson skrifar
Ingibjörg hefur hleypt af stað söfnun fyrir Maríu, vinkonu sína sem missti dóttur sína í Suður-Afríku. Þær tvær hafa báðar ent börnin sín í meðferð til landsins.
Ingibjörg hefur hleypt af stað söfnun fyrir Maríu, vinkonu sína sem missti dóttur sína í Suður-Afríku. Þær tvær hafa báðar ent börnin sín í meðferð til landsins. Samsett Mynd

Söfnun hefur verið hrundið af stað fyrir fjölskyldu íslensku stúlkunnar sem lést í bílslysi í Suður-Afríku á miðvikudag. Vinkona móður stúlkunnar, sem og bróður hennar hvern hún var að heimsækja, stendur fyrir söfnuninni.

Í gær var greint frá því að Íslendingarnir sem létust í umferðarslysi í Suður-Afríku í vikunni hefðu verið þar til að heimsækja íslenskan dreng í fíknimeðferð. Systir drengsins og föðuramma létust í slysinu, en faðir hans liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Móðir stúlkunnar nefnist María Sif Ericsdóttir en vinkona hennar, Ingibjörg Einarsdóttir, hefur nú hrundið af stað söfnun fyrir Maríu. Ingibjörg á einnig dreng sem er í meðferð í Suður-Afríku.

„Harmurinn er ólýsanlegur,“ skrifar Ingibjörg á Facebook.  Hún segir að María hafi farið til Suður-Afríku á föstudag með fjölskyldu sinni til að færa syninum fréttirnar og sækja látna dóttur sína og ömmu drengsins. Faðir drengsins liggi enn þungt haldinn á spítala og þurfi líklega langa endurhæfingu ef hann lifir hann af. 

„Til að standa straum af kostnaði og til að létta vinkonu minni lífið á þessum erfiðu tímum viljum við sem stöndum henni næst efna til söfnunar í hennar nafni,“ skrifar hún og tekur fram að það síðasta sem hún þurfi á að halda núna sé að hafa fjárhagsáhyggjur, bæði vegna kostnaðar við áframhaldandi meðferð fyrir drenginn og kostnaðar sem fellur á hana vegna harmleiksins.

Þá útlistar hún reikningsnúmer Maríu, sem sé 2200-26-095108 og kennitala 241178-4049

Bústaðakirkja opnaði dyr sínar á föstudag fyrir aðstandendur og vini hinna látnu og þess slasaða. Athöfnin var vel sótt og fjölmenntu samnemendur stúlkunnar meðal annars til að minnast hennar, sýna samstöðu og samhug.

Dæmi eru um að foreldrar sendi börn til Suður-Afríku í meðferð vegna vímuefnavanda þar sem þeir finna ekki réttu úrræðin hér á landi. Mæðurnar þrjár sem fóru með drengi sína til Suður-Afríku hafa auk þess verið tilnefndar til manns ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×