Innlent

Ó­vissa um ráðherraskipan og skata fyrir byrj­endur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Erla Björg Gunnarsdóttir les kvöldfréttirnar á Sýn í kvöld.
Erla Björg Gunnarsdóttir les kvöldfréttirnar á Sýn í kvöld. vísir

Ekkert er því til fyrirstöðu að Ásthildur Lóa Þórsdóttir snúi aftur í embætti ráðherra ef svo fer að Flokkur fólksins þurfi að stokka upp í ráðherraliði sínu. Þetta segir stjórnmálafræðingur sem rætt verður við í kvöldfréttum Sýnar, en hann segir mikilvægt að eyða óvissu um skipan ráðherraembætta til lengri tíma. Sem stendur gegnir Inga Sæland þremur ráðherraembættum.

Í fréttatímanum verður einnig farið ítarlega yfir þær breytingar sem verða um áramótin þegar ný lög um kílómetragjald taka gildi. Á móti álagningu gjaldsins ætti eldsneytisverð að lækka allnokkuð.

Streita, pirringur og reiði hefur gert vart við sig í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í aðdraganda jóla og dæmi eru um að menn hafi gefið hver öðrum puttann. Í fréttatímanum verður rætt við sálfræðing sem segir nokkur ráð vera til gegn jólastressinu.

Kæst skata og skötuveislur eru líka fastur liður eins og venjulega á Þorláksmessu, en það er allur gangur á því hversu kæst skatan á að vera að mati veislugesta sem fréttastofa ræddi við í dag. Sjálfur smakkar fréttamaður skötu í fyrsta sinn á ævinni í fréttatímanum. Jólastemningin er jafnframt við völd í miðborginni á Þorláksmessu þar sem verslunarmenn standa vaktina og gengin er friðarganga, þrátt fyrir nokkra úrkomu.

Í sportinu verður meðal annars rætt við fótboltamanninn Arnór Ingva Traustason sem er að hefja nýjan kafla, og farið yfir tilnefningar til Íþróttamanns ársins.

Þetta og fleira í kvöldfréttum Sýnar á slaginu klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×