Lífið

Smurði kúk um allt stofu­gólfið þar til hann kafnaði úti í horni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ógeðsleg sjón blasti við Kristínu Helgu, eða Dinnu eins og hún er gjarnan kölluð, þegar hún kom heim og ryksuguróbotinn Rúmbi hafði reynt að þrífa upp hundaskít í stofunni.
Ógeðsleg sjón blasti við Kristínu Helgu, eða Dinnu eins og hún er gjarnan kölluð, þegar hún kom heim og ryksuguróbotinn Rúmbi hafði reynt að þrífa upp hundaskít í stofunni.

Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir skildi hunda sína tvo eftir eina heima með ryksuguróbotnum. Þegar hún sneri aftur hafði orðið smá slys í stofunni en vélmennið gert illt verra með því að dreifa kúk um rýmið áður en hann geispaði golunni úti í horni.

Kristín Helga lenti í þessari miður skemmtilegu uppákomu á mánudagsmorgun og greindi Fésbókarvinum síðan frá henni degi síðar í færslu.

„Ég deili þessu með ykkur til gamans og af því að ég er aðeins farin að glotta út í annað, en hef verið í miklu uppnámi síðan í gær. Ég skrapp sumsé í bæinn fyrir klukkan átta í gærmorgun og hleypti Lottu og Bellu út í piss og nauðsynleg hundamorgunverk. Svo fengu þær mat og skipun um að sofa þar til ég kæmi aftur,“ skrifar Kristín Helga í færslunni.

„Um ellefuleytið sneri ég aftur og hvað hafði gerst? Jú, önnur hvor (líklega eldri borgarinn) hafði kúkað á stofugólfið - sem er bara sjaldgæft slys og alveg í lagi, mér að kenna og lítið mál að þrífa og skúra í hvellinum og alls ekki í frásögur færandi. Þannig skítur skeður ... En, nei, aðstæður á vettvangi voru ekki svo einfaldar.“

Ólýsanleg aðkoma í stofunni

„Rúmbi ryksuguróbóti hafði rokið af stað í vinnuna... sem hann gerir aldrei 🙉 Þetta kvikindi gerir allt illa og ekkert óumbeðinn. En þarna ákvað gerviheilinn skyndilega að bruna inn í stofu og beinustu leið í kúkinn. Svo dundaði hann sér við að smyrja kúk á allt stofugólfið þar til hann kafnaði sjálfur í kúk og dó úti í horni,“ skrifar hún í færslunni.

„Aðkoman var ólýsanleg. Ég áttaði mig satt að segja alls ekki strax á því hvað gerst hafði þar sem Rúmbi mókti í hvarfi. Ég virti fyrir mér buddurnar tvær sem voru tandurhreinar og sætar ... og undrandi og jafnvel miður sín, fannst mér.“

Það hafi tekið hana marga tíma að „þrífa, moka, skafa, bleyta, spreyja, skúra og skúra aftur og svo skúra meira.“ 

Saurgaurinn þrifinn en samt ógeðslegur

Kristín Helga segist síðan klætt sig eins og raðmorðinginn Dexter í svuntu, hanska og með poka og lagt ryksuguvélmennið á hvítt plast í þvottahúsinu. 

„Þar var hann þrifinn með latexhönskum, eyrnapinnum og pappír. Samt er hann ennþá ógeðslegur og nú er ég að stúdera hvernig á að skrúfa hann í sundur og í öreindir til að þrífa hjólalegur. Á meðan á þessu stendur urrar hann reglulega: empty the bin, eins og það sé hans stærsta vandamál. Ef ekkert gengur ekki þá hendi ég þessum skítahaug,“ skrifar hún.

„Um helgina voru deilur í skraflinu um það hvort saurgaur væri alvöru orð, en Rúmbi er saurgaur. Allan gærdaginn andaði ég bara með munninum og er að reyna að ná tökum á því að anda aftur með nefinu. Ég veit svo sem ekki hvað það gagnast að deila svona skít, en hér er kaffipása og svo held ég áfram. Góðar stundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.