Veður

Gæti slegið í storm og hring­vegurinn lokaður

Atli Ísleifsson skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi á sunnan- og austanverðu landinu.
Gular viðvaranir eru í gildi á sunnan- og austanverðu landinu. Vísir/RAX

Alldjúp lægð við Færeyjar beinir norðlægri átt til landsins í dag sem víðast verður 10 til 18 metrar á sekúndu. Á Suðausturlandi og Austfjörðum má hins vegar búast við hvassviðri eða stormi og einnig getur slegið í storm í staðbundnum vindstrengjum á Suðurlandi og við Faxaflóa.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að norðanáttinni fylgi snjókoma eða él víða um land og líkur séu á að færð spillist í skafrenningi fyrir austan. Sunnanlands verður lengst af úrkomulítið.

Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálandi fram eftir degi en til morguns á Suðaustur- og Austurlandi.

Hringvegurinn á milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar er enn lokaður og stendur til að athuga málið aftur klukkan tíu. Veginum var lokað í gærkvöldi klukkan níu vegna óveðurs sem þar gengur nú yfir.

Frost á landinu verður á bilinu núll til sex stig.

„Í fyrramálið verður lægðin fyrir norðaustan land og heldur farin að grynnast. Áttin verður því norðvestlæg, víða 13-20 m/s, en hægari vestantil. Nýjustu spár gera ráð fyrir áframhaldandi ofankomu á Norðurlandi, en yfirleitt þurru veðri syðra. Herðir á frosti. Þegar líður á daginn dregur svo smám saman úr vindi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðvestan 13-20 m/s, en mun hægari um landið vestanvert. Él norðaustanlands, annars þurrt að kalla. Frost 3 til 12 stig. Dregur smám saman úr vindi eftir hádegi.

Á miðvikudag: Norðaustlæg eða breytileg átt 5-13. Lítilsháttar snjókoma norðantil, en lengst af þurrt í öðrum landshlutum. Frost 1 til 10 stig.

Á fimmtudag og föstudag: Norðvestan og norðan 5-10 og él, en þurrt um landið sunnanvert. Áfram svalt.

Á laugardag: Vaxandi suðaustanátt. Hlýnar sunnan- og vestanlands seinnipartinn með slyddu og síðar rigningu, en þurrt um landið norðaustanvert.

Á sunnudag: Suðlæg átt og skúrir eða él, en rigning austantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×