Veður

Stíf norðvest­læg átt á­samt ofan­komu

Atli Ísleifsson skrifar
Frost verður á bilinu eitt til níu stig í dag.
Frost verður á bilinu eitt til níu stig í dag. Vísir/Vilhelm

Lægð austnorðaustur af landinu beinir stífri norðvestlægri átt ásamt ofankomu til landsins í dag, en úrkomulítið verður sunnanlands.

Á vef Veðurstofunnar segir að gular viðvaranir vegna vinds og hríðar séu í gildi í fyrstu á norðaustanverðu landinu, en áfram dragi úr vindi og ofankomu. Í kvöld verður svo komið skaplegt veður víðast hvar.

Frost verður á bilinu eitt til níu stig þar sem kaldast verður inn til landsins.

„Á morgun, miðvikudag er útlit fyrir norðaustan kalda, en hægari norðan og austantil. Dálítill éljagangur fyrir norðan og einnig allra syðst og austast um kvöldið en þurrt í öðrum landshlutum. Hiti breytist lítið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðaustlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Lítilsháttar snjókoma norðantil, en lengst af þurrt í öðrum landshlutum. Frost 1 til 10 stig, mildast við ströndina.

Á fimmtudag og föstudag: Norðlæg eða breytileg átt, 5-10 og dálítil él, en þurrt um landið sunnanvert. Áfram kalt í veðri.

Á laugardag: Breytileg átt 3-8 og úrkomulítið. Vaxandi suðaustanátt síðdegis og hlýnar sunnan- og vestanlands með slyddu eða rigningu seint um kvöldið.

Á sunnudag: Suðaustanátt með rigningu eða slyddu, en úrkomulítið fyrir norðan. Hægari suðlæg átt síðdegis og stöku skúrir eða él, en rigning á Suðausturlandi. Kólnar heldur.

Á mánudag: Útlit fyrir suðlæga átt með dálítilli úrkomu í flestum landshlutum. Víða frostlaust við ströndina, annars vægt frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×