Innlent

Einn af hverjum fjórum stjórn­endum notar gervi­greind dag­lega

Kjartan Kjartansson skrifar
Aragrúi gervigreindarspjallmenna og forrita hefur skotið upp kollinum undanfarin ár. Stjórnendur nýta sér þau í vaxandi mæli í daglegum störfum.
Aragrúi gervigreindarspjallmenna og forrita hefur skotið upp kollinum undanfarin ár. Stjórnendur nýta sér þau í vaxandi mæli í daglegum störfum. Vísir/EPA

Tæplega tvöfalt fleiri stjórnendur fyrirtækja segjast nú nota gervigreind mikið við dagleg störf sín en fyrir ári. Fjórðungur þeirra notar gervigreindina mikið en aðeins rúmur fimmtungur segist ekki nýta sér hana.

Hlutfall þeirra stjórnenda sem sögðust nýta gervigreind mikið í daglegum störfum jókst úr þrettán prósentum í 25 prósent á milli kannana sem Prósent gerði í loks árs 2024 annars vegar og í lok síðasta árs hins vegar. Hlutfallið var fimm prósent í byrjun árs 2024.

Á sama tíma fækkaði verulega þeim sem sögðust ekki nota gervigreindina í störfum sínum. Þeir voru 53 prósent í byrjun árs 2024 en 22 prósent í lok árs 2025.

Meirihluti stjórnendanna sem svöruðu könnuninni töldu gervigreindina hafa jákvæð áhrif á rekstur síns fyrirtækis, um 62 prósent. Hlutfallið var 55 prósent fyrir ári.

Stjórnendur stærri fyrirtækja voru líklegri til þess að nota gervigreind en minni og helmingi fleiri stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Sumir sjá tækifæri til að fækka starfsmönnum

Þeir stjórnendur sem sögðust nota gervigreindina mikið voru jákvæðari í garð hennar. Níutíu prósent þeirra sögðust telja hana hafa jákvæð áhrif næstu þrjú árin. Aðeins fimmtungur þeirra sem nýtti hana ekki var sama sinnis.

Kostirnir sem stjórnendurnir nefndu helst við gervigreindina var að hún yki skilvirkni og framleiðni og að starfsfólk hefði meiri tíma til að sinna öðrum verkefnum.

Fimmtungur taldi gervigreindina bæta upplifun viðskiptavina með hraðari þjónustu, til dæmis með spjallmennum. Þá sáu fjórtán prósent stjórnendanna tækifæri til þess að fækka starfsmönnum og draga úr kostnaði við starfsmannahald.

Helstu hættuna við gervigreindina töldu stjórnendurnir óáreiðanlegar niðurstöður í gervigreindarkerfum eins og ChatGPT og skort á mannlegum þætti í ákvörðunartöku.

Aðeins sautján prósent stjórnenda höfðu áhyggjur af breytingu sem gervigreindin hefði á störf og innan við þriðjungur af slæmum áhrifum á íslenska tungu.

Könnunin byggði á svörum rúmlega sex hundruð stjórnenda og var gerð í nóvember og desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×