Lífið

Gugga í gúmmí­bát og Pat­rekur Jaime í eina sæng

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Patrekur Jaime og Gugga stýra skútunni á undan Blö á föstudögum.
Patrekur Jaime og Gugga stýra skútunni á undan Blö á föstudögum.

Útvarpsþátturinn Jaime og Gúmmí, undir stjórn áhrifavaldanna Patreks Jaime og Guggu í gúmmíbát, hefur göngu sína á FM957 í dag. Þátturinn verður í beinni útsendingu alla föstudaga milli 14 og 16.

„Enginn er óhultur“ er yfirskrift þáttanna  og mega hlustendur búast við beittum skoðunum, svörtum húmor, óvæntum umræðuefnum og umræðu þar sem ekkert er sett í bómul, að sögn þáttastjórnenda.

„Jaime og Gúmmí koma til með að auka við fjölbreytnina í dagskrá FM957 þar sem við viljum auðvitað ná til sem flestra og bjóða upp á hágæða afþreyingu. Þau hafa bæði reynslu úr fjölmiðlum og ég get ekki beðið eftir að fyrsti þáttur fari í loftið!“ sagði Egill Ploder dagskrárstjóri FM957.

Jaime og Gúmmí verða á föstudögum.

Patrekur Jaime og Gugga í gúmmíbát hafa bæði slegið í gegn á undanförnum árum.

Gugga í Gúmmíbát vakti fyrst athygli á samfélagsmiðlum áður en hún varð hluti af hlaðvarpsþættinum Veislunni með Gústa B og Sigga Bond. Hún sló rækilega í gegn í annarri seríu af Bannað að hlæja á Sýn og var með djammþætina Gugga fer á djammið á Vísi í vetur.

Patrekur Jaime er landsþekktur eftir að hafa slegið í gegn í sjónvarpsþáttunum Æði og hefur fest sig í sessi sem rödd sem þorir að segja það sem aðrir hugsa.

„Ég er ógeðslega spenntur að byrja í útvarpinu. Mér finnst æði að fá að vera með Guggu í þessu verkefni enda er hún ein af mínu nánustu. Það er einhver sérstök stemning að byrja helgina sína í útvarpi sem ég er svo spenntur að upplifa. Er smá stressaður af því við bæði segjum alveg galna hluti af og til vonandi fer það bara vel í fólkið,“ sagði Patrekur.

Patrekur og Gugga leiða hlustendur í gegnum föstudagseftirmiðdegið með lifandi samtölum, tónlist, gestum, sketsum og óvæntum uppákomum. 

„Þátturinn er ætlaður þeim sem vilja eitthvað aðeins djarfara, ófyrirsjáanlegra og hreinskilnara í íslensku útvarpi,“ segir Egill Ploder um Jaime og Gúmmí.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.