Innlent

Nú má heita Friðálv Gletting Lucíuson

Árni Sæberg skrifar
Mannanafnanefnd gerði engar athugasemdir ef þessi kona skírði barnið Friðálv Gletting og tæki sjálf upp nafnið Lucía.
Mannanafnanefnd gerði engar athugasemdir ef þessi kona skírði barnið Friðálv Gletting og tæki sjálf upp nafnið Lucía. Getty/Nasos Zovoilis

Mannanafnanefnd kom saman á fundi í gær og samþykkti sex ný nöfn á mannanafnaskrá. Þeirra á meðal eru karlmannsnafnið Friðálv og millinafnið Gletting.

Kveðnir voru upp úrskurðir um sex beiðnir um skráningu nafns á mannanafnaskrá og allar beiðnirnar voru samþykktar. Nöfnin sem samþykkt voru karlmannsnöfnin Ásbrandur, Draumur, Friðálv, Hrymur og Styrkur, kvenmannsnafnið Lucía og millinafnið Gletting.

Nefndin samþykkti öll nöfnin án frekari rökstuðnings en að þau uppfylltu öll skilyrði laga um mannanöfn, fyrir utan nafnið Lucía.

Það samþykkti nefndin með vísan til þess að það sé ritháttarafbrigði nafnanna Lúsía, Lucia og Lúcía, sem séu á mannanafnaskrá. Það uppfylli þannig þrjú af fjórum skilyrðum laganna en þar sem bókstafurinn c sé ekki í íslenska stafrófinu sé nafnið ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og því aðeins unnt að samþykkja nafnið að hefð sé fyrir þessum rithætti þess.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands beri enginn einstaklingur, sem uppfylli skilyrði vinnulagsreglna mannanafnanefndar varðandi hefð, nafnið Lucía. Nafnið Lucia komi fyrir í ýmsum ritmyndum í manntölum og í tveimur þeirra sé nafnið ritað með umbeðnum rithætti. 

Þar sem nafnið komi fyrir í manntali 1920 og sú sem nafnið bar hafi látist árið 1964 telji mannanafnanefnd að hefð sé fyrir þessum rithætti nafnsins með vísan til vinnulagsreglna og það sé því samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×