Íslenski boltinn

Stjarnan selur Adolf Daða til FH

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Adolf Daði stekkur og fagnar marki með Stjörnunni. 
Adolf Daði stekkur og fagnar marki með Stjörnunni.  vísir / PAWEL

Adolf Daði Birgisson hefur yfirgefið herbúðir Stjörnunnar og gengið til liðs við lið FH í Bestu deild karla í fótbolta.

Adolf Daði er 21 árs gamall sóknarmaður sem getur spilað úti á kanti en fékk takmarkaðan spiltíma á síðasta tímabili með Stjörnunni. Hann á þrjá leiki að baki fyrir u21 árs landslið Íslands og smellpassar inn í yfirlýsta stefnu FH um að yngja liðið.

„Adolf Daði er uppalinn Stjörnumaður og hefur verið félaginu afar dýrmætur í gegnum árin. Hann lék alls 117 leiki fyrir meistaraflokk Stjörnunnar og skoraði í þeim 15 mörk. Allt frá sínum fyrstu mínútum hefur hann sýnt mikla fagmennsku, dugnað og metnað – bæði innan vallar sem utan“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.

„Við höfum fylgst með Adolfi í dágóðan tíma og erum mjög ánægðir með að hafa náð að klófesta hann. Hann kemur inn með mikla orku, hraða og vinnusemi. Getur leyst báðar kantstöðurnar og framherjastöðuna hjá okkur. Hann hefur einnig fína reynslu úr efstu deild, tækifærin hafa verið af skornum skammti undanfarið en við ætlum okkur að hjálpa honum að koma ferlinum á fulla ferð á nýjan leik“ segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×