Enski boltinn

Sjáðu alla dramatíkina úr enska boltanum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Amine Adli skoraði sigurmark Bournemouth í síðustu sókn leiksins gegn Liverpool.
Amine Adli skoraði sigurmark Bournemouth í síðustu sókn leiksins gegn Liverpool. Michael Steele/Getty Images

Fimm leikir fóru fram í enska boltanum og mörkin úr þeim öllum má sjá hér fyrir neðan. Manchester City og West Ham unnu mjög örugga sigra en mikil spenna var í hinum þremur leikjunum. 

Bournemouth - Liverpool 3-2

Bournemouth vann dramatískan 3-2 sigur þökk sé sigurmarki Amine Adli í uppbótartíma leiksins.

Dominik Szoboszlai hélt að hann hefði tryggt Liverpool fimmta jafnteflið í röð með laglegu skoti fyrir utan teig eftir stutta aukaspyrnu frá Mohamed Salah.

Hræðileg mistök Virgil van Dijk færðu Bournemouth mark á silfurfati á 26. mínútu og Evanilson nýtti sér það. Joe Gomez meiddist í aðdraganda marksins og var enn úti af vellinum þegar Alex Jimenez kom Bournemouth í 2-0 á 33. mínútu.

Virgil van Dijk bætti aðeins fyrir mistökin þegar hann skallaði hornspyrnu Dominik Szoboszlai í markið rétt fyrir hálfleik.

Klippa: Bournemouth - Liverpool 3-2

Wolves - Man. City 0-2

Omar Marmoush byrjaði í framherjastöðunni í stað Erling Haaland og þakkaði traustið strax á 6. mínútu leiksins, þegar hann skoraði opnunarmarkið eftir frábæra fyrirgjöf Matheus Nunes.

Antoine Semenyo tvöfaldaði forystu City fyrir hálfleik. Hann fékk boltann frá Bernardo Silva og afgreiddi færið mjög snyrtilega með vinstri fæti.

Klippa: Wolves - Man. City 0-2

Burnley - Tottenham 2-2

Það stefndi í óvænt tap hjá Tottenham á móti Burnley en fyrirliðinn Cristian Romero jafnaði metin með frábærum skalla á 90. mínútu og tryggði Spurs 2-2 jafntefli.

Micky van de Ven kom Tottenham í 1-0 á 38. mínútu en Axel Tuanzebe jafnaði metin eftir sendingu frá Kyle Walker í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Lyle Foster kom Burnley síðan yfir á 76. mínútu eftir hræðilegan varnarleik Tottenham og Burnley-liðið sá sigur í hillingum en Tottenham náði að bjarga stigunum.

Klippa: Burnley - Tottenham 2-2

Fulham - Brighton 2-1

Fulham vann dramatískan 2-1 sigur á Brighton & Hove Albion í London. Harry Wilson skoraði sigurmarkið með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á annarri mínútu í uppbótartíma.

Yasin Ayari kom Brighton yfir á 28. mínútu en Samuel Chukwueze jafnaði metin fyrir Fulham á 72. mínútu.

Klippa: Fulham - Brighton 2-1

West Ham - Sunderland 3-1

Öll þrjú mörk West Ham voru skoruð í fyrri hálfleik er heimamenn sýndu mikla yfirburði.

Jarrod Bowen lagði fyrsta markið upp fyrir Crysencio Summerville sem skoraði með hnitmiðuðum skalla. Bowen skoraði síðan annað markið úr vítaspyrnu eftir brot Trai Hume á Oliver Scarles og hárréttan dóm.

Þriðja markið var einkar glæsilegt en þá skaut Mateus Fernandes boltanum í netið af löngu færi.

Sunderland minnkaði muninn um miðjan seinni hálfleik með skallamarki Brian Brobbey eftir fyrirgjöf Nordi Mukiele.

Klippa: West Ham - Sunderland 3-1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×