Innlent

Öflugur 92 ára dósa og plast plokkari á Suður­landi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðni að störfum við Suðurlandsveginn á milli Hveragerðis og Selfoss.
Guðni að störfum við Suðurlandsveginn á milli Hveragerðis og Selfoss. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þrátt fyrir að Guðni Guðmundsson, bóndi á Þverlæk í Rangárþingi ytra sé orðinn 92 ára gamall þá er hann enn að ganga með fram vegum og tína upp einnota umbúðir, dósir og flöskur. Hann hefur safnað tæplega 30 milljónum á síðustu 20 árum og gefið meira og minna íþróttafélaginu í sveitinni hans allan peninginn.

Guðni er hér mættur í heimsókn til Þrastar sonar síns á Fossheima á Selfossi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en Þröstur hálsbrotnaði vorið 2021 og dvelur því þar. Þröstur er að sjálfsögðu mjög stoltur af pabba sínum, 92 ára að vera enn að tína upp dósir og plastflöskur með fram vegum á Suðurlandi og á Hellisheiðinni en Feðgar á ferð, sem var þáttaröð á Stöð 2 fyrir nokkrum árum myndaði einmitt Guðna þá við tínslu.

„Jú, hann er alveg hörkukarl, það er ekki hægt að neita því, hann hefur staðið sig vel í öllu, sem hann tekur sér fyrir hendur,” segir Þröstur þegar hann er spurður út í dugnað pabba síns.

Og hann er búinn að gefa allan peninginn til íþróttafélagsins Garps eða hvað?

„Já mikið af honum og önnur líknarfélög og styrkja bókaútgáfu. Þetta hefur allt farið til góðra verka. Ég er mjög stoltur af pabba, annað er ekki hægt”, segir Þröstur.

Guðni á Þverlæk, ásamt Þresti syni sínum, sem býr á Fossheimum á Selfossi eftir að hafa hálsbrotnað í maí 2021.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað hefur Guðni safnað nákvæmlega miklum peningum á þessum 20 árum?

„Það reyndust vera 28,3 milljónir. Rúmar 22 hafa farið í íþróttafélagið en hitt hefur farið í ýmsa aðra félagsstarfsemi hérna á Suðurlandi,” segir Guðni, sem tók tölurnar saman um síðustu áramót.

Guðni segist líka gera töluvert af því að sækja umbúðir á sveitabæi og svo safnar hann í sérstaka kassa á svæðinu á milli Þjórsár og Rangár.

Guðni er með og hefur alltaf verið með mjög gott bókhald yfir það hvað hann er að safna mikið eftir daginn. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hann segir alltaf nóg af dósum og flöskum hér og þar í vegköntunum.

„Já, það er töluvert stúss að eiga við þetta, það fer mörg stundin í þetta en á sama tíma heldur þetta mér í góðu formi. Ég fæ út úr þessu hreyfingu og að hafa eitthvað til að hugsa um, ekki bara að koðna ekki bara niður,” segir Guðni.

En þú ert orðinn 92 ára, þú veist það?

„Svo er sagt,” segir hann hlæjandi.

Og Guðni ætlar að halda áfram að tína og leggja góðum málefnum lið.

„Já á meðan ég hef hreyfigetu þá verð ég eitthvað að grúska í þessu,” segir Guðni kátur og hress 92 ára dósasafnari á Suðurlandi.

Þröstur er að sjálfsögðu mjög stoltur af pabba sínum og hvað hann hefur náð að safna miklum peningum síðustu 20 ár og gefa þá til baka til ýmissa mála.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×