Innlent

Blótað í Grinda­vík á nýjan leik

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Þorrablótið fer fram í íþróttahúsi bæjarins.
Þorrablótið fer fram í íþróttahúsi bæjarins. vísir/vilhelm

Þorrablót Grindvíkinga mun fara fram í íþróttahúsinu í Grindavík í kvöld í fyrsta skipti síðan að bærinn var rýmdur þann tíunda nóvember árið 2023 eftir miklar jarðhræringar á Reykjanesskaganum.

Sigurður Þyrill Ingvason er einn þeirra sem koma að skipulagningu mótsins en hann segir eftirvæntinguna gríðarlega meðal heimamanna. Hann segir von á um þúsund gestum og fagnar því að sjá bæinn iða af lífi á nýjan leik. Löngu sé uppselt á viðburðinn.

„Það er gríðarleg spenna. Fólk er búið að bíða núna í marga daga eftir því að komast á blót í Grindavík. Það eru allir stólar í húsinu fullir. Það er hreinlega uppselt. Það verður gífurleg stemmning í þessu glæsilega veðri sem við fáum.“

Hann reiknar með miklum gleðskap og hressum Grindvíkingum í sínu fínasta pússi.

„Sparifötin og spariskapið. Við ætlum bara að hafa gaman saman.“

Hann reiknar með að um tilfinningaríka stund verði að ræða fyrir ýmsa.

„Alveg klárlega. Við Grindvíkingar höfum nýtt hvert einasta tækifæri sem við getum til að hittast og hafa gleðistund saman í sambandi við íþróttakappleiki til dæmis. Við héldum tvö blót í Smáranum í Kópavogi síðustu ár. Núna förum við heim og hittumst þar. Ætli þetta verði ekki bara tár, bros og takkaskór? Er það ekki í takt við tímann?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×