Gagnrýni

Í landi fáránleikans

Jólasveinn í rauðum búningi á harðahlaupum í hitanum í Nazaret með nokkra pilta á hælunum. Pakkarnir hrynja úr bakpokanum hans og þegar hann nemur staðar sér maður að það stendur risastór búrhnífur í brjósti hans. Þar er eitthvað verulega bogið við þessa mynd, sérstaklega þar sem jólasveinninn er ekki Ástþór Magnússon.



Maður gengur út úr húsi sínu með sorppoka og kastar honum yfir í garð nágrannans. Þetta gerir hann aftur og aftur þar til nágranninn fær nóg og byrjar að kasta ruslinu til baka. Það líkar dónalega nágrannanum illa og hann skammar nágrannakonu sína fyrir að kasta ruslinu í garðinn sinn að sér forspurðum. Nágrannar eigi nefnilega að geta talað saman og sýnt hvor öðrum virðingu.



Þetta eru aðeins tvö af ótal sýrðum atriðum sem mynda arabísku verðlauna kvikmyndina Divine Intervention. Það er varla hægt að tala um að myndin hafi söguþráð sem slíkan og framan af spyr maður sig hvað í ósköpunum maður sé að horfa á. Það fæst enginn botn í þennan stórundarlega og vægast sagt brotakennda söguþráð. Svo segir nánast engin neitt og það litla sem persónurnar láta frá sér fara er algerlega út í hött. Eða hvað?



Divine Intervention er erfið mynd á að horfa. Ekki vegna ofbeldis eða neins slíks heldur er frásagnarmátinn alls ekki sniðinn að smekk Vesturlandabúa fyrir línulega framvindu sögunnar, hraðar klippingar og hasar. Það gáfust nokkrir upp á þessari sýningu og gengu út áður en nokkur heilleg mynd komst á þetta brotapúsl.



Ég er ekki frá því að þetta fólk hafi verið að missa af einhverju óskilgreinanlegu, hugmynd, fræi sem skýtur rótum einhver staðar í kollinum á manni og byrjar að vaxa.

Divine Intervention er nefnilega áhrifarík mynd í öllum fáránleika sínum og þegar maður hugsar um hana út frá þeirri staðreynd að hún lýsir upplausn í lífi Araba og gyðinga á hernumdu svæðunum áttar maður sig á því að hvert atriði er hlaðið merkingu og þegar brotin fara að renna saman í huganum eftir að myndin er búin gerir maður sér grein fyrir því að maður var að upplifa eitthvað sem maður fær ekki skilið.



En hver skilur svo sem þann fáránleika sem blasir við fólki sem býr í Ramallah og þarf hálf dofið að horfast í augu við sjálft sig, grimmilegt umhverfið og tilfinningar sínar?



Yadon ilaheyya

(Divine Intervention)

Leikstjóri: Elia Suleiman

Aðalhlutverk: Elia Suleiman, Nayef Fahoum Daher

Þórarinn Þórarinsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×