Viðskipti innlent

Samkeppnisyfirvöld skoða kaupin

Samkeppnisyfirvöld skoða nú kaup Símans á sýningarrétti enska boltans og fjórðungshlut í Skjá einum. Stöð tvö ítrekaði í gær tveggja ára gamla kvörtun sína til samkeppnisyfirvalda vegna breiðvarps Símans. Samkeppnisráð tók ákvörðun árið 1998 í svokölluðu breiðvarpsmáli. Þá var mælt fyrir um fjárhagslegan aðskilnað breiðvarpsins og annarar starfsemi Landssímans. Stöð 2 kvartaði hins vegar fyrir tveimur árum yfir því að aðskilnaðurinn væri ekki augljós. Rannsókn fór í gang en í millitíðinni tók Samkeppnisráð ákvörðun um að forgangsraða verkefnum stofnunarinnar vegna anna; olíumálin og fleiri stór mál voru sett á oddinn. Öðrum var tilkynnt um að talsverð bið yrði á afgreiðslu þeirra mála. Þar á meðal var Stöð 2. Í gær ítrekaði Stöð 2 kvörtun sína vegna fyrra málsins með hliðsjón af kaupum Landssímans á hlut í Skjá einum og enska boltanum. Samkeppnisyfirvöld eru einnig að skoða samrunann að eigin frumkvæði og þá með hliðsjón af samrunaákvæði samkeppnislaga. Landssíminn hefur óskað eftir fundi með stofnuninni á fimmtudag til að ræða markmið kaupanna og viðhorf fyrirtækisins. Guðmundur Sigurðsson hjá Samkeppnisstofnun segir að reynt verði að leggja mat á það hvort þetta sé samruni í skilningi samrunaákvæðis samkeppnislaga. Ef um það er að ræða samkvæmt lögunum verður lagt mat á hvort þetta hafi samþjöppun í för með sér á þeim mörkuðum þar sem áhrifanna gætir, og hvort samþjöppunin kunni að vera skaðleg fyrir samkeppnina.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×