Viðskipti innlent

Gátu ekki unnið með Símanum

Norðurljós og Síminn munu ekki byggja upp starfrænt sjónvarpskerfi í sameiningu og því keyptu Norðurljós hlut í Og Vodafone. Þetta segir stjórnarformaður Norðurljósa sem hefur ekki skipt um skoðun á fjárfestingu Símans í Skjá einum. Norðurljós keyptu í gær 35 prósenta hlut í símafyrirtækinu Og Vodafone og varð þar með stærsti hluthafinn í félaginu. Viðskiptin nema um 5 milljörðum króna. Leiðir fyrirtækjanna tveggja hafa áður legið saman því fyrir um ári áttu Norðurljós hlut í Tali sem varð að OgVodafone. Sá eignarhlutur var seldur. Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður Norðurljósa, segir breytingar á markaði vera ástæðu fyrir kaupunum nú. Þetta sé gott félag sem eigi sér bjarta framtíð og í framtíðinni verði aukinn samgangur á milli síma og fjölmiðlunar. Með kaupunum sé því einnig verið að styrkja tengslin við öflugt símafélag. Skarphéðinn hefur gagnrýnt kaup Símans á Skjá einum. Aðspurður hvort þetta séu ekki sömu ástæður og Síminn beri fyrir sig segir hann það alveg rétt en með þeim kaupum sé ljóst að Norðurljós geti ekki átt samleið með Símanum í uppbyggingu stafrænts sjónvarps. Skarphéðinn segist nú vera á því að sjónvarps- og símarekstur fari vel saman sem sé í samræmi við það sem áður hafi komið fram. Þetta er þróunin að hans sögn. Aðspurður um kaup Norðurljósa á OgVodafone sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra að málið væri komið í hring. „Átti Jón Ólafsson ekki 40% í Tali. Er þetta ekki bara inn og út um gluggann eins og var sagt í vísunni?“ spurði forsætisráðherra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×