Nýja stjórnin tekin við
Ný ríkisstjórn, undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar, tók formlega við á ríkisráðsfundi sem nú stendur yfir á Bessastöðum. Halldór er fimmtándi forsætisráðherra lýðveldisins. Davíð Oddsson, sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra lengst allra Íslendinga eða í þrettán ár, er nú utanríkisráðherra í ríkisstjórn Halldórs. Önnur breyting sem orðið hefur á ríkisstjórninni er að Sigríður Anna Þórðardóttir hefur tekið við embætti umhverfisráðherra af Siv Friðleifsdóttur. Myndin er frá síðustu ráðherraskiptum þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við menntamálaráðuneytinu af Tómasi Inga Olrich.