Viðskipti innlent

Kærir mbl.is fyrir samkeppnisbrot

Frétt ehf. sem á og rekur vefsetrið visir.is hefur sent Samkeppnisstofnun formlegt erindi vegna meintra brota Morgunblaðsins á samkeppnislögum. Frétt ehf. telur að fullyrðingar í auglýsingum sem birst hafa í Morgunblaðinu vegna vefseturs blaðsins, brjóti í bága við 21. grein samkeppnislaga. Í kvörtun Fréttar ehf. til Samkeppnisstofnunar segir m.a.; "Í Morgunblaðinu 20. sept. síðastliðinn birtist auglýsing frá vefsetrinu mbl.is þar sem fullyrt er að smáauglýsingavefur mbl.is "sé sá stærsti sinnar tegundar". Einnig eru auglýsingar á ýmsum vefsetrum eins og mbl.is, folk.is, barnaland.is, hugi.is og sjálfsagt víðar, þar sem fullyrt er að mbl.is sé "stærsti smáauglýsingavefurinn"". Frétt ehf telur þetta brjóta í bága við 21. grein samkeppnislaga þar sem þessi fullyrðing sé einfaldlega röng. Vísar Frétt ehf. í tölur um fjölda smáauglýsinga á hvorum vef, máli sínu til stuðnings. "Þar með er augljóst að fullyrðingar um að mbl.is sé stærsti smáauglýsingavefurinn eru villandi og beinlínis rangar. Slíkar fullyrðingar eru þá til þess ætlaðar að villa um fyrir fólki. Allt þetta brýtur í bága við samkeppnislög," segir í erindi Fréttar til Samkeppnisstofnunar. "Staðreyndin er einfaldlega sú að visir.is er að jafnaði, ef ekki alltaf, með mun fleiri smáauglýsingar en mbl.is og á því tilkall til þess að vera nefndur sem stærsti smáauglýsingavefur landsins. Þar með er ljóst að fullyrðing mbl.is er beinlínis röng og því er okkur nauðugur einn kostur að kæra mbl.is til samkeppnisyfirvalda," segir Þorsteinn Eyfjörð, hjá Vísi. Frétt ehf. fer fram á að Samkeppnsistofnun krefjist þess að Morgunblaðið hætti að birta þessar auglýsingar þegar í stað. "Frá okkar bæjardyrum séð þolir þetta mál enga bið," segir Þorsteinn Eyfjörð. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×