Viðskipti innlent

Viðskiptin aldrei verið fleiri

Viðskipti í Kauphöll Íslands hafa aldrei verið fleiri á fyrstu þremur fjórðungum ársins samkvæmt viðskiptayfirliti Kauphallarinnar eða 1.515 talsins. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans nú síðdegis. Mikil velta hefur verið á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði á árinu og hefur hvert veltumetið á fætur öðru fallið. Heildarvelta hlutabréfa á árinu nemur 465 milljörðum króna sem er 24% aukning frá sama tíma í fyrra. Nýliðinn septembermánuður var veltumesti mánuður frá upphafi og var veltan 99 milljarðar króna. Veltuhæsti dagur frá upphafi var einnig í september, nánar tiltekið þann 30. september, þegar heildarvelta hlutabréfa nam 33 milljörðum króna. Þessa miklu veltu má rekja til eignabreytinga á Íslandsbanka samkvæmt Landsbankanum. Meðalvelta á dag var 2,5 milljarða króna það sem af er ári en til samanburðar var meðalvelta 2 milljarðar á dag á sama tímabili í fyrra. Það sem af er ári er veltuaukning á skuldabréfamarkaði 31% miðað við sama tímabil í fyrra, en heildarvelta með skuldabréf og víxla nemur 1.050 milljörðum króna á árinu. Meðalvelta var 5,6 milljarðar á dag fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins en meðalveltan var 4,4 milljarðar á dag á sama tímabili í fyrra. Mesta dagsvelta fyrstu níu mánuði ársins var þann 10. júní þegar veltan nam 19,5 milljörðum króna. Mesta dagsvelta þriðja ársfjórðungs var þann 24. ágúst þegar veltan var 17,1 milljarðar íslenskra króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×