Innlent

Enginn liggur undir grun

Rannsókn á meintri íkveikju í Votmúla, atvinnuhúsnæðinu á Blönduósi sem brann nánast allt til kaldra kola aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku, hefur ekki skilað neinum árangri. "Það er búið að skoða allar þær vísbendingar sem við fengum og tala við tugi manna," segir Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi. "Við erum ekki komnir með neitt sem hönd er festandi á og eins og staðan er núna liggur enginn undir grun." Kristján segir að rannsóknin haldi áfram og enn séu bundnar vonir við að hún muni leiða í ljós hver kveikti í húsinu. "Þetta getur allt í einu smollið saman og vonandi gerist það," segir Kristján. Í fyrstu var talið að kviknað hefði í út frá rafmagni en rannsókn tæknideildar lögreglunnar leiddi síðan í ljós að svo var ekki. Eldurinn átti upptök sín í skilrúmi milli matvælaverksmiðjunnar Vilkó og pakkhúss kaupfélagsins. Síðan bruninn varð hafa nánast allir sex lögreglumennirnir á Blönduósi rannsakað málið með aðstoð tæknideildarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×