Innlent

Brutust inn á skrifstofu DV

Fréttastjóri DV var tekinn hálstaki þegar þrír menn ruddust inn á ritstjórnarskrifstofur DV í hádeginu í gær og kröfðust þess að fá að tala við annan ritstjóra blaðsins. Skömmu síðar átti blaðamaður blaðsins fótum sínum fjör að launa þegar mennirnir bökkuðu bíl sínum á miklum hraða upp á gangstétt þar sem hann stóð og fylgdist með brottför þeirra. Mennirnir kröfðust þess að fá að tala við Mikael Torfason, annan ritstjóra DV. Þegar þeim var sagt að hann væri fjarverandi og þeir beðnir um að fara tóku þeir Reyni Traustason fréttastjóra tvívegis hálstaki og höfðu í hótunum við fólk. "Ég er kominn með áverkavottorð og geng formlega frá kæru á morgun," sagði Reynir í gær. "Ég mun hvergi gefa eftir, frekar en ritstjórnin í heild," segir Reynir sem ætlar að fylgja því eftir að málið verði klárað. "Ég vil helst sjá þessa menn í fangelsi." Blaðamaður sem fylgdi mönnunum eftir til að ná númeri á bíl þeirra og sjá hvert þeir færu átti fótum sínum fjör að launa þegar þeir virtust reyna að aka hann niður. Mennirnir tengjast vélhjólaklúbbnum Fáfni. Lögregla leitaði þeirra í gærkvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×