Viðskipti innlent

Engin áhrif á Kárahnjúkavirkjun

Forstjóri Landsvirkjunar segir ásakanir á hendur Impregilo á Ítalíu og verðfall hlutabréfa fyrirtækisins engin áhrif hafa á framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Impregilo er aðalverktaki Kárahnjúkavirkjunar og sem slíkur með stærsta verksamning sem um getur í sögu Íslands. Hlutabréf þess féllu um 37% í gær í kjölfar frétta um að fjármálaeftirlit Ítalíu væri að rannsaka hugsanlegt bókhaldssvindl. Verðlækkunin gekk að hluta til baka í dag þegar hlutabréf hækkuðu um 10%. Spurður hvort það fari um yfirmennn Landsvirkjunar þegar slíkar fréttir berist segir Friðrik Sophusson, forstjóri fyrirtækisins, svo ekki vera. Impregilo sé að vinna fyrir þá fyrir um 40 milljarða og hafi þegar skilað tæpum þriðjungi verksins, og engin merki sjáist að fall hlutabréfanna hafi áhrif á starfsemi fyrirtækisins hér á landi.   Friðrik segir að samkvæmt samningum við verktaka yfirleitt leggi þeir, eða bankar fyrir þeirra hönd, fram tryggingar sem hægt sé að grípa til ef illa fer. Ef verktakinn fer á hausinn á verkkaupinn líka rétt á að taka verkið yfir og fela einhverjum öðrum að klára það. Landsvirkjun er því mjög róleg yfir málinu að sögn Friðriks.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×