Menning

Eldtungur og gallabuxur

"Ég hef alltaf verið með bíladellu en Trabantáhuginn vaknaði þegar ég var 15 ára. Ég get ekki alveg útskýrt hvers vegna," segir Jón Baldur Bogason, sem vekur athygli hvert sem hann fer á Trabantinum sínum sem er vægast sagt óvenjulegur og skrautlegur í meira, alsettur eldtungum. "Ég fékk svo þessa flugu í hausinn að flytja inn Trabant og flutti þennan inn frá Berlín. Þá var hann einlitur blár." Jón Baldur segist hafa fengið aðstoð við að gera upp bílinn sem er árgerð 1987. "Ég þóttist vera að hjálpa til en var nú aðallega bara fyrir," segir hann hlæjandi. "En við tókum hann líka í gegn að innan, það var til dæmis hvítt léreft í hurðarspjöldunum en við afi saumuðum inn í hann gamlar gallabuxur. Það kemur rosalega vel út. Svo eru náttúrlega flottar græjur í honum, þetta er einn með öllu." Trabantinn er fyrsti bíllinn sem Jón Baldur eignast og hann segir hann hafa reynst hreint frábærlega. "Hann fer alltaf í gang og ég hef alltaf komist allt sem ég þarf á honum, líka í snjóhvellinum um daginn." Nú er Jón Baldur í almennri deild í Iðnskólanum. "Ég vonast til að komast inn í bílasprautun í Borgó eftir jól," segir Jón Baldur og þar er hann örugglega kominn á rétta hillu því hann segir bíladelluna nánast það eina sem komist að hjá honum. Jón Baldur ber líka út Fréttablaðið og hefur gert undanfarin tvö ár. "Við hjálpumst að við þetta, ég, amma og afi, svo þetta er bara ágætt. " Þó að stefnan hjá Jóni Baldri sé að vasast sem mest í bílum í framtíðinni segist hann örugglega ætla að eiga Trabantinn áfram. "Ég myndi aldrei tíma að losa mig við hann," segir Jón. "Þetta er dýrgripur."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×