Innlent

Reykjanesbrautin ekki breikkuð?

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur hafnað því að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til að breikka Reykjanesbraut samkvæmt fyrirliggjandi tillögum. Bæjarstjórinn segir meðal annars hljóðmanir of háar en fundur verði með hagmunaðilum í næstu viku. Bæjarstjórinn efast ekki um að brautin verði breikkuð. Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri lagði fram tillögu á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi þar sem lagt var til að fallast ekki á framkvæmdaleyfi fyrir Vegagerðina vegna breikkunar Reykjanesbrautar í landi Garðabæjar, samkvæmt þeim tillögum sem fyrir liggja. Ásdís Halla segir þær tillögur sem lágu fyrir frá Vegagerðinni mun betri en þær sem voru uppi á borðinu fyrir ári. Þá þurfi viðkomandi ráðherrar og þingmenn að leggja mat á málið, enda komi það í þeirra hlut að veita fjármunum til verksins. Ljóst sé að breyta þurfi þeim hugmyndum sem fyrir liggja. Sumar hljóðmanirnar séu t.d. enn of háar og spurning sé hvort vegurinn verði lækkaður. Ásdís segir töluverðan mun vera á kostnaðaráætlunum fyrir það verk, eða allt frá 500 til 1200 milljónir. Með lækkun brautarinnar opnast möguleiki á að leggja hana í stokk en Ásdís Halla segir ekki kröfu um slíkt núna, hvað sem verði síðar, til dæmis eftir einhverja áratugi en slíkt kosti um fjóra milljarða króna. Hún segir að samgönguráðherra ætli að boða í næstu viku til fundar með bæjaryfirvöldum, umhverfisráðherra, Vegagerðinni og þingmönnum kjördæmisins um framhaldið. Ásdís efast þrátt fyrir allt ekki um að Reykjanesbrautin verði breikkuð því hún gegni það miklu lykilhlutverki á höfuðborgarsvæðinu - það sé aðeins spurning með hvaða hætti það verði gert. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×